Hlutabréf Suður-Kóreskra fyrirtækja sem komu að framleiðslu hinnar geysivinsælu Netflix þáttaraðar Squid game hækkuðu í verði í gær eftir að þættirnir unnu tvö af virtustu verðlaununum á bandarísku Emmy-verðlaunahátíðinni. Bloomberg segir frá.

Kvikmyndaverið Bucket Studio hækkaði um allt að 12% innan dags, en við lok markaða hafði sú hækkun að mestu gengið til baka og bréfin enduðu 2,2% hærri en við upphaf viðskipta um morguninn.

Bucket Studio á hlut í umboðsskrifstofu aðalleikarans, Lee Jung-jae, sem hlaut Emmy-verðlaunin fyrir besta leik í dramaþáttaröð í gær. Höfundurinn Hwang Dong-hyuk hlaut einnig verðlaun fyrir bestu leikstjórn.

Óvæntar vinsældir þáttanna í fyrrahaust leiddu af sér miklar hækkanir á gangvirði kóreskra framleiðenda skemmtiefnis, meðal annars Bucket sem hafði þrefaldast í verði um síðustu áramót, en hefur það sem af er þessu ári fallið aftur um ríflega helming.

Kvikmyndaver sem vinnur að kóreskri endurgerð glæpaspennuþáttanna The Mentalist, Samhwa Networks Co., hækkaði um 5,8% í gær. Þá hækkaði ContentreeJoongAng Corp. sem framleiðir tvær þáttaraðir fyrir Netflix um 5,6%.