Kóreska líftæknifyrirtækið CellMeat hefur í hyggju að setja upp sína fyrstu framleiðslu utan Kóreu á vistkjöti í Græna iðngarðinum á Suðurnesjum. Giljun Park, stofnandi og forstjóri Cellmeat, og Þór Sigfússon, stjórnarformaður Græna iðngarðsins og Sjávarklasans, undirrituðu nýverið viljayfirlýsingu þess efnis í Seúl í Kóreu.

„CellMeat hefur náð eftirtektarverðum árangri á sviði framleiðslu á frumuræktuðu rækjukjöti og kavíar úr sjávarafurðum. Fyrirtækið hefur einkaleyfi á aðferð sinni og er í dag með framleiðslugetu sem nemur um 200 tonnum sem auðvelt er að skala upp,“ segir Þór.

Fyrirtækið sótti sem nemur tæpum tveim milljörðum íslenskra króna til uppbyggingar sinnar hjá m.a. bandarískum fjárfestingarsjóðum árið 2023.

Að sögn Þórs er framleiðsla Cellmeat mjög umhverfisvæn og kolefnisspor í þessum „nýja sjávarútvegi“ sé lægra en í nær allri annarri matvælaframleiðslu.

„Forsenda hreinnar framleiðslu fyrirtækisins er þó sú að orkan til starfseminnar sé græn eins Ísland hefur upp á að bjóða. Þá hefur nálægð við hafnir og alþjóðaflugvöllinn og öflugar tengingar til Bandaríkjanna og Evrópu mikið að segja um áhuga fyrirtækisins á aðstöðu hér. CellMeat hefur verið í samstarfi við líftæknifyrirtækið Orf Genetics og hélt nýverið kynningu á afurðum sínum í Sjávarklasanum Grandagarði.“

Cellmeat og Íslenski sjávarklasinn hafa jafnframt í hyggju að efla samstarf um frekari kynningu á vistkjöti tengdu hafinu og annarri framtíðartækni í framleiðslu sjávarafurða og nýta m.a. til þess samstarfsnet klasans á Íslandi og systurklasa Sjávarklasans víða um heim.

dr. Giljun Park, stofnandi og forstjóri CellMeat, og Þór Sigfússon, stjórnarformaður Græna iðngarðsins og Sjávarklasans, við verksmiðju Cellmeat í Seúl.
dr. Giljun Park, stofnandi og forstjóri CellMeat, og Þór Sigfússon, stjórnarformaður Græna iðngarðsins og Sjávarklasans, við verksmiðju Cellmeat í Seúl.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.