Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar hefur opnað nýja verslun ásamt Epal á Keflavíkurflugvelli í sama rými og verslun Eymundssonar var áður. Greint er frá þessu á Facebook-síðu Kormáks og Skjaldar.
„Góðir farþegar! Kormákur & Skjöldur hækka nú flugið og bjóða ykkur velkomin í nýja verslun okkar á Keflavíkurflugvelli. Í rýminu þar sem Eymundsson var áður höfum við nú opnað nýja verslun ásamt vinum okkar hjá Epal. Í versluninni finnur þú úrval af okkar fallegustu vörum og ýmislegt sem getur komið sér vel í ferðalaginu,“ segir í færslunni.
Í lok júní opnuðu einnig veitingastaðurinn Maika‘i og verslunin Jens.
„Það er virkilega gaman að sjá þessi tvö íslensku fyrirtæki opna útibú á Keflavíkurflugvelli. Kormákur & Skjöldur og Epal eru skemmtilegar verslanir með eftirsóknarverðar gjafavörur fyrir bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn og passa því virkilega vel í verslanaflóruna á flugvellinum. Okkar markmið er að gera Keflavíkurflugvöll að enn skemmtilegri viðkomustað, að farþegar njóti flugstöðvarinnar vel síðustu klukkustundirnar fyrir flug og geti keypt áhugaverðar vörur á góðu verði,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og og veitinga hjá Isavia.
Kormákur og Skjöldur hafa rekið herrafataverslun í Kjörgarði á Laugarvegi frá árinu 2006 og heldur einnig úti lítilli búð í Gróðurhúsinu í Hveragerði. Þá er að finna Ölstofu Kormáks og Skjaldar á Vegamótastíg 4.
Auk nýju verslunarinnar í Leifsstöð rekur Epal fimm verslanir hér á landi, þar af fjórar á höfuðborgarsvæðinu og eina í Gróðurhúsinu í Hveragerði.