Heildar greiðslukortavelta á Íslandi í desember nam rúmum 115,7 milljörðum króna og jókst um tæp 16,3% á milli ára, að því er kemur fram í mánaðarlegri samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV).

Greiðslukortavelta innlendra korta hérlendis nam tæpum 99,7 milljörðum og jókst um tæp 10,2% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Greiðslukortavelta innlendra korta hérlendis jókst um 2,4% að raunvirði á milli ára í desember.

Innlend kortavelta í verslun nam tæpum 60,3 milljörðum í desember og jókst um tæp 5,1% á milli ára. Innlend kortavelta í þjónustu nam tæpum 39,5 milljörðum í desember og jókst um 19% á milli ára.

„Desember er jafnan mesti neyslumánuður ársins. Engin breyting varð á því á sl. ári. Greiðslukortavelta innlendra korta hérlendis er jafnan um 22% meiri í desembermánuði en aðra mánuði ársins. Í desember sl. var veltan 25,4% meiri en hún var að meðaltali aðra mánuði ársins,“ segir í frétt RSV.

„Verðhækkanir á árinu hafa þar áhrif en þegar leiðrétt er fyrir verðlagi má enn greina kröftuga einkaneyslu í jólamánuðinum þetta árið.“

Heildar velta innlendra greiðslukorta í verslunum og þjónustu erlendis nam rúmum 23,8 milljörðum króna í nóvember síðastliðnum.

Erlend kortavelta jókst um 77% á milli ára

Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam tæpum 16,1 milljarði og jókst um 77,3% á milli ára. Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var tæp 13,9% í desember 2022 en sama hlutfall var rúm 14,7% í desember 2019.

Ferðamenn frá Bandaríkjunum voru ábyrgir fyrir rúmlega 33% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í desember. Bretar komu næstir með 18,4% og svo Þjóðverjar með 4,4%.