Heildarvelta innlendra greiðslukorta í verslunum og þjónustu erlendis meira en tvöfaldaðist á milli ára og nam rúmum 21,5 milljörðum króna í apríl síðastliðnum. Velta innlendra greiðslukorta erlendis hefur ekki verið hærri frá því að mælingar hófust árið 1997 að því er kemur fram í mánaðarlegri samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV).
Sjá einnig: Metfjöldi Íslendinga fór til útlanda í maí
Heildar greiðslukortavelta í maí síðastliðnum nam tæpum 106,8 milljörðum króna og jókst um 23,7% á milli ára. Kortavelta Íslendinga hérlendis jókst um 8,6% og nam 87,7 milljörðum en aukningin í þjónustu mældist 20% samanborið við 0,2% aukningu í innlendri kortaveltu í verslun.
Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam rúmum 19 milljörðum í maí og jókst um 35% á milli mánaða. Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 17,9% í síðasta mánuði en sama hlutfall var tæp 22,3% í maí 2019.
Ferðamenn frá Bandaríkjunum voru ábyrgir fyrir 37,5% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í maí. Þjóðverjar koma næstir með 7,6% og svo Bretar með 7,1%.
Mynd tekin úr mánaðarlegri samantekt RSV, gögn frá Seðlabanka Íslands.