Kortavelta landsmanna var alls 4,2% meiri á síðasta ári en árið 2023 og jókst milli ára alla mánuði ársins, miðað við fast verðlag og gengi. Þetta kemur fram í greiningu Landsbankans en þar segir einnig að kortavelta íslenskra heimila hafi numið 127 mö.kr. í desember.
Þar segir jafnframt að kortavelta íslenskra heimila innanlands hafi aukist um 1,4% að raunvirði og jókst um 18,2% erlendis miðað við desembermánuð í fyrra.
„Hafa ber í huga að kortavelta á mann hefur ekki aukist jafnmikið og heildarkortaveltan þar sem landsmönnum fjölgaði milli ára. Enn sem komið er liggja ekki fyrir gögn um fjölda landsmanna undir lok síðasta árs,“ segir í greiningu.
Landsbankinn telur þá líklegt að Seðlabankinn fylgist vel með neyslustigi meðan á vaxtalækkunarferli stendur og sé að reyna að koma í veg fyrir að uppsafnaðar innistæður hrúgist út í neyslu.
Neysla ferðamanna hér á landi mældist þá aðeins 1% meiri í fyrra en árið áður miðað við fast verðlag. Kortavelta Íslendinga var þá mun meiri í útlöndum en hér á landi, eða um 15% erlendis og 1,5% innanlands.
„Hafa ber í huga að kortavelta Íslendinga erlendis kemur bæði frá kortum sem eru straujuð á ferðalögum til útlanda en einnig í erlendri netverslun. Því hefur fylgni milli ferðalaga og kortaveltu verið takmörkuð, en brottfarir Íslendinga til útlanda voru um það bil jafnmargar árin 2023 og 2024 og má því leiða líkum að því að netverslun hafi verið umtalsverð.“