Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar, hefur stefnt ASÍ, SA og íslenska ríkinu fyrir félagsdómi til þess að fá að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Ólöf Helga lagði fram stefnu á föstudaginn, að því er Vísir greinir frá.
Efling neitaði að afhenda félagatal sitt eftir að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu þann 26. janúar síðastliðinn. Með miðlunartillögunni eiga allir félagsmenn Eflingar að fá að kjósa um sömu launahækkanir og samið var um við 18 félög Starfsgreinasambandsins.
Landsréttur hafnaði í síðustu viku kröfu ríkissáttasemjara um að fá afhenda kjörskrá Eflingar. Í kjölfarið óskaði Aðalsteinn, sem hafði gert samkomulag við Eflingu um að kæra úrskurðinn ekki til Hæstaréttar, eftir því að víkja til hliðar í deilum SA og Eflingar og Ástráður Haraldsson var settur sáttasemjari í deilunni.
Ólöf Helga hefur farið fram á að atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna fari fram ekki síðar en á fimmtudaginn. Hún telur að stefnan sé eina leiðin til að hún og aðrir félagsmenn Eflingar fái að taka afstöðu til miðlunartillögunnar að sögn Halldórs Kr. Þorsteinssonar, lögmanns hennar. Þau binda vonir við að stefnan verði þingfest í félagsdómi í dag.