Kostnaðarhlutfall er mælikvarði sem mikið er horft til í bankarekstri, og svo sem í rekstri almennt, enda segir það til um hvað kostnaður er stórt hlutfall af tekjum. Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, hafa sett sér markmið um að kostnaðarhlutfallið fari ekki yfir ákveðin mörk.
Til að mynda greindi Arion banki frá því í lok árs 2021 að markmið bankans um kostnaðarhlutfall miðist við að vera undir 45% og í uppgjöri þriðja ársfjórðungs síðasta árs hjá Íslandsbanka kom fram að leiðbeinandi bil fyrir kostnaðarhlutfall væri 41-44%. Þá er kostnaðarhlutfallsmarkmið Landsbankans 45%.
Íslandsbanki var með lægsta kostnaðarhlutfallið á síðasta ári, eða 42,1%, Arion banki var með 45,6% kostnaðarhlutfall og Landsbankinn 46,8%. Árið áður var Landsbankinn með 43,2% kostnaðarhlutfall, Íslandsbanki 46,2% og Arion banki 51,6%. Árið 2020 var Landsbankinn aftur með lægsta kostnaðarhlutfallið, 47,4%, en Arion banki var skammt undan með 48,1% kostnaðarhlutfall. Íslandsbanki var svo með 54,7% kostnaðarhlutfall það ár.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu.