Áætlaður árlegur meðalrekstrarkostnaður á nemanda í grunnskóla hér á landi hækkaði um 1,1% á milli mánaða, frá desember 2024 til janúar 2025. Áætlaður meðalrekstrarkostnaður hækkaði úr 2.877.123 króna á hvern grunnskólanema í 2.908.025 krónur. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.
Þegar horft er aftur til ársins 2020 hefur áætlaður kostnaður á hvern grunnskólanema aukist um 46% eða nærri eina milljón króna, úr tæplega tveimur milljónum króna í tæplega þrjár milljónir króna á verðlagi hvers árs. Sé miðað við verðlag dagsins í dag nemur hækkunin 8%.
Næst versta en þriðja dýrasta kerfið
Síðasta haust vöktu ummæli Einars Þorsteinssonar, borgarstjóra Reykjavíkurborgar, hörð viðbrögð meðal kennara. Þar benti Einar á tölfræði sem sýndi fram á að víða væri pottur brotinn í skólamálum og nefndi m.a. lága kennsluskyldu og hátt veikindahlutfall kennara sem dæmi. Ummælin féllu eins og fyrr segir í mjög grýttan jarðveg meðal kennara og skipulagði Kennarafélag Reykjavíkur mótmæli vegna ummæla Einars. Sumir kennarar lögðu niður störf til að mæta í ráðhús Reykjavíkur að mótmæla.
Viðskiptaráð ákvað í tilefni þessa að taka saman gögn um grunnskólakerfið og bentu þær tölur til þess að áhyggjur borgarstjóra væru svo sannarlega ekki úr lausu lofti gripnar. Áður hafði Viðskiptaráð bent á dræman árangur íslenskra grunnskóla í PISA, sem er sá næstslakasti í Evrópu.
Í umfjöllun ráðsins um málið kom fram að íslenskt grunnskólakerfi sé það þriðja dýrasta innan OECD. Kostnaður á hvern grunnskólanema er 41% yfir meðaltali OECD, leiðrétt fyrir kaupmætti. Aðeins Noregur og Lúxemborg hafa á að skipa dýrari grunnskólakerfum.
Tvíþættur vandi grunnskólakerfisins
Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, óttast að ofangreind þróun muni halda áfram. „Engin yfirsýn er til staðar yfir námsárangur barna eftir að samræmd próf voru lögð niður. Fyrir vikið er ekki hægt að aðstoða þá skóla eða þau börn sem þurfa á hjálp að halda. Það er ekki heldur hægt að læra af því sem vel er gert. Námsárangur mun því halda áfram að versna samhliða áframhaldandi einkunnaverðbólgu. Á sama tíma standa yfir verkfallsaðgerðir Kennarasambands Íslands sem munu leiða til hærri kostnaðar þegar samið verður um lok þeirra.“
Hann segir vanda íslenska grunnskólakerfisins tvíþættan. Annars vegar sé árangur kerfisins sá næstlakasti í Evrópu þegar litið er til færni í lestri, reikningi og vísindum. Hins vegar sé kerfið óhagkvæmt í þeim skilningi að kostnaður á hvern nemanda er sá næsthæsti í Evrópu. „Þegar þetta tvennt er tekið saman þá skilar grunnskólakerfið okkar minnstu færni fyrir hverja krónu í Evrópu. Við höfum bent á leiðir til að bæta úr hvoru tveggja.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.