Samkvæmt greiningu Stefnis á launum forstjóra skráðra félaga hérlendis sést að laun hafa hækkað minna en launavísitala á tímabilinu 2016 til 2023, hvort sem forstjórarnir séu með kauprétt eða ekki.

Þegar kemur að kauprétti stjórnenda á Íslandi er algengast að nýtingarverð miðist við markaðsverð á úthlutunardegi eða meðaltal síðustu 10 til 20 daga. Til að tryggja að stjórnendur njóti ekki óeðlilegs hagnaðar án raunverulegs árangurs er nýtingarverðið oftar en ekki árlega uppreiknað með vaxtastigi. Þetta vaxtastig hefur verið breytilegt á milli félaga.

Til að mynda eru Hagar, Festi, Reitir og Heimar með 5,5% árlegt vaxtastig. Sýn er með 7,5% sem hæsta vaxtarstigið og Icelandair 3% sem er það lægsta. Þessi uppreikningur tryggir að kaupréttur verður aðeins „in the money“ eða í hagnaði ef raunveruleg ávöxtun verður á hlutabréfum, sem skapar beina tengingu við árangur fyrirtækisins.

Frá 2021 hefur notkun kaupréttar aukist veru­lega hjá félögum í kaup­höllinni. Um helmingur útistandandi kaupréttar­samninga er hins vegar verð­laus eða „out of the mon­ey“.

Þróun hluta­bréfa­verðs í kaup­höllinni síðustu mánuði hefur ekki hjálpað til í þessum efnum.

Kaupréttur er í eðli sínu val­réttur til að kaupa hluta­bréf sem fyrir­tæki veitir stjórn­endum gegn því að um­samið kaup­verð hluta­fjár sé greitt til félagsins þegar og ef val­rétturinn er nýttur.

Stjórn­endur þurfa því að skapa raun­veru­legan virðis­auka (með hækkun markaðsvirðis) um­fram um­samið kaup­verð hluta­fjár.

Sam­kvæmt greiningu Stefnis má sjá að félög í kaup­höllinni sem eru með kaupréttaráætlanir eru al­mennt að út­hluta kauprétti sem nemur um 2% af útistandandi hluta­fé en þó eru einnig til­fallandi dæmi um hærra hlut­fall.

Í lok árs 2024 var umfang uppsafnaðs kauprétts til stjórnenda íslenskra fyrirtækja frá 2021 þannig að kaupverð hlutafjár var til dæmis um 2 milljarðar hjá Högum hf., um 1,77 milljarðar hjá Skel fjárfestingarfélagi hf., en kaupverð hlutafjár hjá Kviku, Eimskip, Icelandair, Festi og Símanum var um eða yfir milljarður hjá hverju félagi.

Ef mögulegur kostnaður til hluthafa af kauprétti sem var úthlutaður á árinu 2024, miðað við 12,5% árlega ávöxtun, er skoðaður er ljóst að kaupréttur getur leitt til hækkunar á heildarlaunakostnaði til forstjóra og framkvæmdastjóra.

Samkvæmt útreikningum Stefnis er um að ræða allt að 25-26% hækkun miðað við árið 2023 en vegna skorts á upplýsingagjöf þá er ekki alltaf hægt að slá því föstu hver hækkunin er þar sem ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig kaupréttarheimildum er dreift til stjórnenda.

Hagar og Festi eru hér í sérflokki en í báðum tilfellum gæti kostnaðurinn til hluthafa farið yfir 250 milljónir króna, miðað við forsendu um 12,5% árlega ávöxtun hlutafjár á markaði. Mögulegur heildarkostnaður Icelandair er 215 milljónir, Heima 163 milljónir og Reita 154 milljónir.

Sýn stendur upp úr með vaxtastigið 7,5% og hefur í kjölfarið mun lægri kostnað, einungis 38,5 milljónir eða aðeins 4,6% hækkun á árlegum kostnaði miðað við forsendur Stefnis. Þetta sýnir hvernig uppsetning skilmála getur dregið úr kostnaði til hluthafa.

Norðurlöndin með lægra hlutfall

Sé litið til Norðurlandanna eru flest félög með hlutfall kauprétts af hlutafé undir 1% en þó þarf að hafa í huga að heildarmarkaðsvirði félaga leikur þar stórt hlutverk.

Coloplast til að mynda, sem er þriðja stærsta félag í Danmörku, með markaðsvirði um 3.052 milljarða króna, veitti fimm stjórnendum kauprétt sem var í heild sinni um 0,26% af útistandandi hlutafé.

Vaxtastig nýtingarverðsins var 5% árlega. Orkla, sem er með stærstu félögum í Noregi og hefur markaðsvirði upp á rúma 1.356 milljarða, veitti tíu stjórnendum kauprétt sem var í heild sinni um 0,21% af útistandandi hlutafé. Vaxtastig nýtingarverðsins var 3% árlega.