Áætlað er að kostnaður ríkisins vegna hins almenna hlutafjárútboðs með hlut ríkisins í Íslandsbanka sem hófst í morgun verði um 900 milljónir króna. Þetta kemur fram í útboðslýsingu vegna útboðsins.

Upplýst var í morgun um að til stendur að selja að lágmarki 20% af útistandandi hlutafé Íslandsbanka í útboðinu. Heildarandvirði útboðsins sem rennur til ríkisins er því áætlað um 40 milljarðar króna að því gefnu að útboðsverð verði 106,56 krónur, líkt og í bók A, og að stækkunarheimild sé ekki nýtt.

Hreint andvirði til ríkisins, þ.e. heildarandvirði að frádregnum kostnaði, er því áætlað um 39.176 milljónir króna miðað við ofangreindar forsendur.

Sölutryggingaþóknun upp á 600 milljónir

Áætlaður kostnaður ríkisins samanstendur af þóknun fyrir sölutryggingu, kostnaði sem hlýst af yfirferð og staðfestingu lýsingarinnar, þ.á m. þóknanir til ráðgjafa og kostnaður tengdur markaðssetningu og sölu hlutanna.

Samanlögð sölutryggingarþóknun sem greidd verður af seljanda í tengslum við útboðið er áætluð um 600 milljónir króna. Sú upphæð miðar við að útboðsgengi verði 106,56 krónur og stækkunarheimild ekki nýtt.

Kvika banki, Barclays Bank Ireland og Citigroup Global Markets Europe, umsjónaraðilar útboðsins, sölutryggja útboðið í jöfnum hlutföllum.

Fram kemur að heildarkostnaður sem Íslandsbanki bankinn ber sé áætlaður 50 milljónir króna og samanstendur af tilteknum lögfræðikostnaði, ferðakostnaði og ýmsum útgjöldum.

2,2% af söluandvirðinu

Útlit er því fyrir að kostnaður ríkisins verði um 2,2% af heildarandvirði útboðsins miðað við ofangreinda áætlun ráðuneytisins.

Til samanburðar var beinn kostnaður vegna frumútboðsins á Íslandsbanka sumarið 2021 um 1.704 milljónir króna eða um eða 3,1% af 55,3 milljarða króna.

Þá var kostnaður við lokað útboð Bankasýslu ríkisins í mars 2022 439,5 milljónir króna, eða um 0,8% af 52,7 milljarða króna söluandvirðinu. Fjárhæðin litast þó af því að árangurstengdar greiðslur til söluráðgjafa voru ekki greiddar. Bankasýslan greindi frá því að nokkrum dögum eftir útboðið að áætlaður kostnaður væri um 1,4% af söluandvirðinu.