Kostnaður við gerð nýrrar vefsíðu Seðlabankans sem fór í loftið í byrjun apríl nemur að minnsta kosti 29,2 milljónum króna, að því er kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.
„Endanlegur kostnaður við vefinn liggur ekki fyrir að svo stöddu þar sem endanlegt uppgjör við þjónustuaðila á eftir að fara fram. Lokagreiðsla verður ekki greidd fyrr en eftir að lokaúttekt á vefnum hefur farið fram samkvæmt samningsskilmálum,“ segir í svarinu.
Seðlabankinn fór í útboð með gerð hinnar nýju vefsíðu. Við undirbúning útboðs gerði bankinn ráð fyrir að heildarkostnaður við gerð nýs vefs, þ.e. stofnkostnaður, 500 tímar í aukaverk og rekstrarkostnaður til fimm ára með virðisaukaskatti gæti numið 92,4 milljónum króna.
Bankinn segir að valferlið í útboðinu hafi gert ráð fyrir að taka því tilboði sem fengi hæstu samanlögðu einkunn úr gæðaeinkunn, notkunardæmi og kostnaði.
Tilboð þjónustuaðila, sem er ekki nafngreindur í svarinu, fékk hæstu einkunn samkvæmt fyrirfram gefinni valformúlu og var því tekið. Það tilboð nam rúmlega 24,1 m.kr. og skiptist þannig:
- Stofnkostnaður vegna vinnu við aðlögun, smíði og innleiðingu á nýjum vef hljóðaði uppá 9,9 milljónir króna með vsk. og þar af er búið að greiða rúmlega 7,9 milljónir króna.
- Í tilboðinu var einnig gert ráð fyrir 500 tímum í hugsanleg aukaverk eða 12,4 milljónir króna. Vegna ófyrirséðra breytinga á innviðum Seðlabankans eftir útboðið er sá kostnaður nú orðinn rúmlega 19,5 milljónir króna.
- Rekstrarkostnaður við vefinn til fimm ára er samkvæmt tilboði 1,8 milljónir króna.
Þegar Seðlabankinn kynnti nýja vefinn 2. apríl sl. kom fram að hann bjóði upp á nýjungar sem listaðar eru upp hér.