Tekjur KPMG á Íslandi jukust um 11% á síðasta rekstrarári 2021-2022 og voru samtals um 5,9 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þá jókst hagnaður félagsins um rúmlega 50 milljónir á milli ára og nam 527 milljónum króna á síðasta rekstrarári.

Ársreikningur félagsins fyrir rekstrarárið 2021-2022 sem lauk í september 2022 var samþykktur af hluthöfum á aðalfundi í desember síðastliðnum.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi, segir í tilkynningu að rekstur félagsins byggi á traustum grunni.

Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi:

„Rekstur KPMG á Íslandi byggir á traustum grunni og heldur áfram að vaxa á öllum sviðum. Styrkur okkar felst í þeirri breidd og miklu og fjölbreyttu flóru sérfræðinga sem vinna þétt saman, viðskiptavinum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Við höfum sett okkur það markmið að vera í fararbroddi í sjálfbærnimálum, bæði þeim sem snúa að rekstri félagsins og umhverfi, sem og því að miðla reynslu og þekkingu til viðskiptavina og styðja þá í þeirra sjálfbærnivegferð.“