Hagnaður KPMG á Íslandi nam 783 milljónum króna á síðasta rekstrarári félagsins, sem lauk 30. september síðastliðinn, samanborið við hagnað upp á 627 milljónir árið á undan.

„Markmið félagsins um vöxt og afkomu hafa gengið vel eftir og eru í samræmi við þá stefnumörkun sem farið var í á árinu 2022 og nær til 2025,“ segir í nýrri ársskýrslu félagsins.

KPMG á Íslandi samanstendur af þremur meginstoðum sem eru KPMG ehf., KPMG Law ehf. og KPMG Bókað ehf.

Samanlagðar rekstrartekjur félaganna þriggja að teknu tilliti til innri viðskipta námu tæplega 8,2 milljörðum króna á rekstrarárinu og jukust um 1,1 milljarð króna milli ára. .

„Á öllum sviðum KPMG á Íslandi var reksturinn farsæll og í takti við markmið og væntingar stjórnenda. Mikil aukning er í eftirspurn eftir ráðgjafarþjónustu KPMG auk þess félagið styrkti stöðu sína í þjónustu á sviði endurskoðunar, reikningsskila og uppgjörsmála. Þá var einnig mikill vöxtur hjá KPMG Law sem annast lögfræði- og skattaþjónustu,“ segir í ársskýrslunni.

Starfsfólk KPMG á Íslandi taldi 335 í lok rekstrarársins. Eiginfjárhlutfall félaganna var 38% í lok tímabilsins og hækkaði á milli ára.

Framkvæmdastjórn KPMG á Íslandi. Efri röð f.v. Svanbjörn Thoroddsen, Auður Þórisdóttir, Birna M. Rannversdóttir, Hlynur Sigurðsson, Ágúst Karl Guðmundsson. Neðri röð f.v. Sigrún Kristjánsdóttir, Magnús Jónsson, Erik Christianson Chaillot.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í nóvember síðastliðnum var gerður samningur við norska fjármála- og tæknifyrirtækið ECIT AS um kaup á meirihluta í KPMG Bókað ehf. og mun nýr eigandi taka við rekstrinum í upphafi ársins 2025.

„Við erum stolt af árangri okkar hjá KPMG á árinu og við finnum að viðskiptavinir sækja í vaxandi mæli í þá breiðu þekkingu sem starfsfólk okkar býr yfir, bæði hér á Íslandi sem á alþjóðlegum vettvangi. Með sölu á bókhalds- og launaþjónustu okkar til norska félagsins ECIT AS og auknu samstarfi við KPMG á Norðurlöndum skerpum við enn frekar á kjarnaþjónustu okkar. Við munum til framtíðar leggja áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu á sviði endurskoðunar, ráðgjafar og lögfræði- og skattamála,“ segir Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi.

Stjórn KPMG á Íslandi: F.v. Magnús Erlendsson, Hrafnhildur Helgadóttir, Sigríður Soffía Sigurðardóttir, Sigurjón Örn Arnarson og Jónas Rafn Tómasson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)