Samkvæmt WSJ stefnir KPMG að því að verða fyrsta endurskoðendafyrirtækið af fjórum stærstu, þ.e.a.s. Deloitte, PwC, EY og KPMG, til að reka lögfræðistofu í Bandaríkjunum en ný lög í Arizona leyfa fyrirtækjum sem sérhæfa sig ekki í lögfræði að reka slíkar stofur.

KPMG býst við að fá starfsleyfi frá ríkinu strax í þessum mánuði og gæti þróunin breytt miklu fyrir greinarnar tvær.

Þá gætu lögfræðingar KPMG, sem hafa lagaréttindi í Arizona, einnig haft réttindi til að starfa um alla Bandaríkin. Það gæti veitt fyrirtækinu forskot á keppinauta sína í endurskoðendageiranum og gætu lögfræðistofur einnig mætt aukinni samkeppni.

Reglubreytingin í Arizona hefur verið á teikniborðinu síðan árið 2021 en hugmyndin var að koma til móts við lögfræðingaskort í ríkinu, sérstaklega þegar kemur að málefnum fjölskyldna og innflytjenda.