Ávöxtunarkrafa á tíu ára frönsk ríkisskuldabréf fór upp í allt að 3,022% í morgun og þar með stuttlega yfir ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa Grikklands til tíu ára í fyrsta sinn, samkvæmt frétt Financial Times. Ávöxtunarkrafan stendur í 2,96% þegar fréttin er skrifuð.
Frönsk ríkisskuldabréf hafa lækkað talsvert í verði í dag og í gær vegna áhyggja meðal fjárfesta að deilur um aðahaldssamt fjárlagafrumvarp muni leiða til stjórnarslits á ríkisstjórn Michel Barnier.
Álag á ávöxtunarkröfu tíu ára franskra ríkisskuldabréfa miðað við þýsk ríkisskuldabréf til tíu ára fór upp í allt að 0,9 prósentustig í gær og hafði þá ekki verið meira frá skuldakreppunni í Evrópu árið 2012. Álagið stendur nú í 0,85 prósentustigum.
Barnier vinnur nú að því að ná fjárlagafrumvarpi í gegnum þingið sem felur í sér niðurskurð upp á 60 milljarða evra og skattahækkanir þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé ekki með meirihluta á þingi.
Forsætisráðherrann hefur staðfest að hann hyggist því nýta sér stjórnarskrárákvæði til að koma í veg fyrir þinglega meðferð. Það opnar hins vegar á vantrauststillögu sem gæti endaði með stjórnarslitum og að ekkert verði af umræddum fjárlögum.
Í umfjöllun FT segir að örlög Barnier séu að miklu leyti í höndum Marine Le Pen, þingflokksformanni Þjóðfylkingarinnar. Hún hefur hótað því að flokkurinn muni beita sér gegn ríkisstjórninni ef kröfum hans um að ekki verði hækkað skatta á rafmagn eða endurgreiðslur fyrir lyf og læknaheimsóknir, verði ekki mætt.
Teymi Barnier og Le Pen hafa átt í viðræðum að undanförnum dögum. Antoine Armand, fjármálaráðherra Frakklands, sagði að ríkisstjórnin væri augljóslega tilbúin að gera málamiðlanir til að komast undan stormi á fjármálamörkuðum.
Útlit er fyrir að ríkissjóður Frakklands verði rekinn með halla upp á meira en 6% vergri landsframleiðslu (VLF), sem er meira en tvöfalt meira en viðmið Evrópusambandsins. ESB hefur hafið eftirlitsferli með ríkisfjármálum Frakklands með það að markmiði að hvetja til þess að frönsk stjórnvöld dragi úr hallarekstri á næstu fimm árum.
Umræða að skapast um þörf á neyðaraðstoð AGS
Moritz Kraemer, fyrrverandi framkvæmdastjóri yfir lánshæfiseinkunnum ríkissjóða hjá S&P Global og núverandi aðalhagfræðingur German Landesbank LBBW, segir að hann hafi aldrei orðið var við að jafnmiklar efasemdir um stjórnarfarið í Frakklandi. Markaðir bíði nú eftir trúverðugu svari sem virðist þó ekki í augsýn. Hann benti jafnframt á að ofangreint álag á ávöxtunarkröfu þýskra ríkisskuldabréfa sé skýrt merki.
Vakin er athygli á ummælum Kraemer í pistli Ambrose Evans-Pritchard, viðskiptaritstjóra hjá The Telegraph. Hann bendir á að S&P muni ákveða á föstudaginn hvort að lækka eigi lánshæfismat Frakklands enn meira, eftir að hafa lækkað einkunnina í AA- í maí.
Kraemer sagði að mögulega verði þörf á inngripi á markaðnum af hálfu Seðlabanka Evrópu með skuldabréfakaupakerfi (TPI) sem felur í sér að bankinn myndi kaupa frönsk ríkisskuldabréf til að stuðla að lækkun ávöxtunarkröfunnar.
Slíkt inngrip gæti hins vegar aðeins varað í nokkra mánuði, en að lokum yrði þörf á alvöru aðlögun. Að hans mati myndi það fela í sér samhæfðar aðgerðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og stöðugleikasjóðs evruríkjanna (ESM), til viðbótar við hin hefðbundnu meðul AGS; niðurskurð og skattahækkanir.
Kraemer sagði að umrætt aðlögunarferli myndi líklega fela í sér gífurlega mikið aðhald. Stjórnmálin í kringum ferlið yrði sennilega eitrað þar sem Christine Lagarde, forseti evrópska seðlabankans, er fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands. Þá myndi slíkt björgunarferli krefjast samþykkis stjórnvalda í Þýskalandi og Hollandi ásamt öðrum ríkjum í Norður-Evrópu.