Ávöxtunarkrafan á bandarísk ríkisskuldabréf til tíu ára fór yfir 4.233% í morgun sem þýðir að krafan hefur ekki verið hærri síðan eftir hrun.
Krafan á bandarísk ríkisskuldabréf hefur hækkað ört að undanförnu eftir að hafa verið sögulega lág undanfarin ár meðan að seðlabankinn vestanhafs beitti aðhaldslítilli peningamálastefnu og magnbundinni íhlutun til að stemma stigu gegn áhrifum heimsfaraldursins á efnahagslífið.
Það þótti fréttnæmt í maí í fyrra þegar krafan fór yfir 3% þegar bandaríski seðlabankinn fór að hækka vexti.
Dregur úr þáttöku á markaði
Gengi helstu hlutabréfavísitalna í Bandaríkjunum lækkaði í framvirkum samningum í nótt en ávinningurinn af því að eiga hlutabréf í stað ríkisskuldabréfa hefur ekki verið minni síðan 2002.
Aukin áhætta getur haft í för með sér meiri ávöxtun og þannig hafa fjárfestar heilt yfir grætt meira á því að eiga hlutabréf en skuldabréf í gegnum tíðina. Ávinningurinn af því að eiga hlutabréf í stað skuldabréfa hefur hins vegar farið minnkandi í ár og hefur bilið ekki verið minna í 20 ár.
Greiningaraðilar vestanhafs óttast að þetta muni draga úr þátttöku á hlutabréfamarkaði á næstu misserum en allar helstu vísitölur hafa verið á mikilli uppleið í ár.
S&P 500 vístialan, sem hefur verið á miklu flugi í ár, hefur lækkað um tæp 3% í ágústmánuði. Vísitalan hefur hækkað um 17% á árinu en óttast margir að seinni hluti árs verði ekki jafn öflugur og fyrri hluti árs á hlutabréfamarkaði.
Góð uppgjör, minni fjárfestingar
Langflest skráð fyrirtæki í Kauphöllinni í New York skiluðu betri afkomu en afkomuspár gerðu ráð fyrir. Það hefur þó ekki dugað til að heilla fjárfesta.
Alls hafa 90% fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni skilað uppgjörum og voru 79% þeirra með betri afkomu en greiningaraðilar höfðu spáð.
Fjárfestar hafa hins vegar ekki verið að verðlauna þennan góða árangur og hafa hlutabréf í fyrirtækjunum hækkað um 0,5% að meðaltali eftir að uppgjör hafa verið birt. Á síðustu tíu árum hafa hlutabréf hækkað um 1,6% eftir að uppgjör hafa verið birt.