Ávöxtunarkrafa á tíu ára bandarískum ríkisskuldabréfum fór undir 4% í fyrsta sinn síðan í febrúar í dag. Lækkun ávöxtunarkröfunnar er rakin til aukinna væntinga um vaxtalækkanir hjá Seðlabanka Bandaríkjanna í ár.

Ávöxtunarkrafan á tíu ára ríkisskuldabréfum lækkaði hefur lækkað um 0,13 prósentustig það sem af er degi þegar fréttin er skrifuð og stendur nú í 3,98%. Krafan á tveggja ára bandarískum ríkisskuldabréfum, sem hreyfist gjarnan í takt við væntingar um þróun stýrivaxta, hefur lækkað um 0,15 prósentur og stendur í 4,19%.

Ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa höfðu þegar lækkað í aðdraganda vaxtaákvörðunar seðlabankans. Bankinn tilkynnti í gærkvöldi að hann hefði ákveðið að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum í 5,25-5,5% en þeir hafa ekki verið hærri í 23 ár. Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, gaf þó til kynna að bankinn gæti byrjað að lækka vexti í næsta mánuði.

Áframhaldandi lækkun ávöxtunarkröfunnar í dag virðist merki um að væntingar um þrjár 25 punkta stýrivaxtalækkanir hjá Seðlabanka Bandaríkjunum séu að festa sig í sessi, að því er segir í umfjöllun Financial Times.

Frekari vísbendingar um kólnandi vinnumarkað vestanhafs hafa ýtt undir spár um vaxtalækkanir. Samkvæmt nýjum hagtölum sem birtar voru í morgun hafa umsóknir um atvinnuleysisgreiðslur ekki verið fleiri síðan í ágúst 2023. Jafnframt var greint frá samdrætti í bandarískum iðnaði fjórða mánuðinn í röð og auknu atvinnuleysi í iðnaðargreinum.