Ávöxtunarkrafa á bresk ríkisskuldabréf lækkaði í morgun eftir að Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, sagði í viðtali við BBC að Rachel Reeves yrði áfram fjármálaráðherra „í mjög langan tíma“, og dró þar með úr áhyggjum fjárfesta um stöðu fjármálaráðherrans.

Ummæli Starmer fylgja í kjölfar þess að hann vildi ekki staðfesta á þinginu í gær að Reeves yrði fjármálaráðherra út kjörtímabilið líkt og hann hafði tilkynnt um í janúar síðastliðnum. Það vakti mikla athygli að Reeves var í tárum á meðan fyrirspurnatíma forsætisráðherra stóð yfir í gær.

Atburðarásin í gær leiddi til þess að ávöxtunarkrafa breskra ríkisskuldabréfa hækkaði talsvert og pundið veiktist.

Í umfjöllun Financial Times segir að möguleg starfslok Reeves sem fjármálaráðherra hafi leitt til þess að fjárfestar töldu auknar líkur á að fjármálareglur ríkisstjórnarinnar yrðu lagðar til hliðar í þágu aukinnar lántöku.

Ávöxtunarkrafa á tíu ára bresk ríkisskuldabréf hefur lækkað um 0,08 prósentustig í morgun og stendur í 4,54% þegar fréttin er skrifuð. Til samanburðar hækkaði ávöxtunarkrafan um 0,16 prósentustig í gær, og var það mesta hreyfing á kröfunni innan dags frá því í apríl síðastliðnum.