City National Bank í Banda­ríkjunum hefur krafið söng­varann Chirs Brown um endur­greiðslu á rúm­lega tveggja milljóna dala láni sem sam­svarar rúm­lega 287 milljónum ís­lenskra króna.

Bankinn þurfti að höfða mál gegn Chris Brown í Los Angeles en ekkert hefur verið greitt af höfuð­stól eða vöxtum lánsins.

Brown tók lánið á­samt hópi fjár­festa til að kaupa tvo Popeys kjúk­linga­staði. CNB veitti Brown og fé­lögum lánið árið 2018 en var fyrsti gjalddagi nokkrum árum seinna.

Chris Brown ábyrgðarmaður

Brown er skráður á­byrgðar­maður fyrir láninu en sam­kvæmt máls­gögnum skuldar hann per­sónu­lega 1,3 milljónir dala sem sam­svarar ríf­lega 180 milljónum ís­lenskra króna.

Í kröfunni kemur ekkert fram um hvort rekstur kjúk­linga­staðanna hafi gengið vel eður ei. Í raun kemur ekkert fram um hvort láns­féð hafi farið í að reka Popeys-staði heldur einungis að ekkert hafi verið greitt af láninu.

Chris Brown hefur verið iðinn í skyndi­bita­staðar­ekstri en hann á fjór­tán Bur­ger King staði í heima­ríki sínu Virginíu.

Sam­kvæmt Ya­hoo Finance er auður Chris Brown metinn á bilinu 50 til 150 milljónir dala og því ætti endur­greiðslan á láninu ekki að verða honum um of.