Breskt flugfélag krefst þess að Icelandair Group hf. greiði sér skaðabætur vegna tjóns sem starfsmaður á Keflavíkurflugvelli olli á vél félagsins. Verði fallist á ítrustu kröfur félagsins mun Icelandair þurfa að reiða fram ríflega milljarð króna.

Atvikið sem er upphaf málsins átti sér stað á Keflavíkurflugvelli þann 12. september 2017. Oryx jet hafði pantað veitingar og þjónustu af IGS ehf., en það var sameinað Icelandair í desember 2018, er tjón varð á vél félagsins. Varð það með þeim hætti að starfsmaður IGS settist undir stýri á vinnuvél sem nota átti til að ferma vélina. Umræddur starfsmaður hafði hins vegar hvorki réttindi til að stýra slíku tæki né reynslu og heppnaðist það ekki betur en svo að hann ók vinnuvélinni á skrokk flugvélarinnar.

Afleiðing þess var að nokkuð tjón varð á vélinni og var ekki hægt að fljúga með farþega frá Íslandi líkt og fyrirhugað var. Viðgerð tók einnig nokkurn tíma og liðu tæplega tveir mánuðir áður en vélin komst í gagnið á ný. Krefst Oryx Jet bóta vegna kostnaðar við viðgerðina auk missis tekna á því tímabili sem viðgerð tók. Þá er gerð krafa um bætur vegna skerts verðgildi vélarinnar. Krafan hljóðar upp á 5.582 þúsund bresk pund, 1.360 þúsund dollara og tæplega 151 þúsund evrur auk skaðabótavaxta frá september 2017 og dráttarvaxta frá miðjum desember sama ár.

Miðað við gengi dagsins er andvirði kröfunnar tæplega 1,3 milljarðar króna. Varakrafa hljóðar upp á greiðslu samtölu aðalkröfunnar í íslenskum krónum samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands á tjónsdegi, alls tæplega 956 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .