Félag atvinnurekenda hefur sent Silju Báru Ómarsdóttur, nýjum rektor Háskóla Íslands, erindi þar sem farið er fram á að rektor sjái til þess að HÍ uppfylli ákvæði samkeppnislaga og tilmæli stjórnvalda í tengslum við endurmenntun skólans.

Þar segir að tilmæli stjórnvalda kveði á um að Endurmenntun HÍ verði bókhalds- og stjórnunarlega aðskilin öðrum rekstri skólans.

Í erindinu segir að Endurmenntun eigi í samkeppni við einkarekin fyrirtæki á sviði endur- og símenntunar en vegna skorts á fjárhagslegum aðskilnaði hafi keppinautar Endurmenntunar enga sönnun þess að reksturinn sé ekki niðurgreiddur af skattborgurum.

Samkvæmt 14. grein samkeppnislaga skal samkeppnisrekstur opinberra stofnana vera aðgreindur frá öðrum rekstri og ekki niðurgreiddur af starfsemi sem njóti einkaleyfis eða verndar.

Jafnframt er vitnað í bréf Samkeppniseftirlitsins sem sent var til mennta- og menningarmálaráðuneytisins árið 2021 þar sem mælt var með að opinberir háskólar birtu opinberlega upplýsingar um það hvernig fjárhagslegum aðskilningi væri háttað.

Á vef háskólans segir að rekstur Endurmenntunar HÍ byggist eingöngu á eigin tekjum í formi námskeiðsgjalda og að Endurmenntun njóti engra opinberra fjárframlaga.

Að mati FA er sú fullyrðing ófullnægjandi en Endurmenntun er til að mynda rekin á sömu kennitölu og Háskóli Íslands og er jafnframt ekki gerð grein fyrir rekstri hennar í ársreikningi háskólans.

„FA fer þess eindregið á leit við rektor að hún beiti sér fyrir því að greinargóðar og sannreynanlegar upplýsingar um rekstrar- og stjórnunarlegan aðskilnað Endurmenntunar HÍ frá annarri starfsemi skólans verði birtar opinberlega.“