Hlutabréf í skipaflutningarisanum AP Møller-Mærsk hafa lækkað um tæp 16% síðustu fimm daga eftir að félagið birti árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs.
Í uppgjörinu kom fram að EBITDA- afkoma Mærsk fór úr 10,9 milljörðum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi ársins 2022 í 1,9 milljarða á tímabilinu í ár. Mun það vera 1270 milljóna króna samdráttur á milli ára.
Gengi Mærsk hefur tekið örlítið við sér í morgun og hækkað um tæp 3% í dönsku Kauphöllinni. Gengi skipaflutningarisans hefur þó lækkað um 38% á árinu.
Mærsk greindi frá því í uppgjöri að til stæði að segja upp tíu þúsund starfsmönnum á næstu dögum en félagið hefur nú þegar sagt upp 6.500 starfsmönnum á árinu.
„Tekjufallið var viðbúið en nýjar markaðsaðstæður krefjast aðgerða,“ sagði Vincent Clerc, forstjóri Mærsk, á blaðamannafundi í síðustu viku. „Við þurfum að vera tilbúin í slaginn og að fara í gegnum erfiða tíma,“ bætti Clerc við sem málaði svarta mynd af næstu mánuðum.
Tekjur Eimskips dragast saman um 31%
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, tók í sama streng í uppgjöri þriðja ársfjórðungs Eimskips sem birtist eftir lokun markaða í gær. Í uppgjörinu kom fram að tekjur lækkuðu um 90,2 milljónir evra eða 31% samanborið við þriðja ársfjórðung 2022.
Bæði Clerc og Vilhelm segja að afkoma félaganna sé að versna vegna lægri alþjóðlegra flutningsverða. Forstjóri Mærsk segir flutningsverð orðið lægra en það var fyrir Covid-faraldurinn.
„Við skiluðum góðri afkomu í fjórðungnum, á markaði sem hefur náð jafnvægi eftir mjög óvenjulegt tímabil sem einkenndist af gríðarlegum sveiflum á alþjóðlegum flutningamörkuðum. Þessar markaðsbreytingar sjást greinilega á þeirri verulegu lækkun sem við sáum bæði á tekjum og kostnaði frá fyrra ári. Þrátt fyrir þessar gjörbreyttu markaðsaðstæður, höfum við náð að halda góðri framlegð með því að einblína á framúrskarandi þjónustu, skilvirkt kostnaðaraðhald, kvika innkaupastýringu gagnvart flutningsbirgjum og virka sölustýringu,“ sagði Vilhelm Már í uppgjörinu.
„Það er krefjandi að reka skipafélag í óblíðum aðstæðum Norður-Atlantshafsins og ýmis rekstrarleg atvik sem rekja má til veðuraðstæðna,“ bætti hann við.
Gengi Eimskips í Kauphöllinni er óbreytt eftir uppgjörið í gær en 186 milljón króna viðskipti hafa verið með bréf félagsins það sem af er degi.
Hlutabréfaverð Eimskips hefur lækkað um tæp 6% sl. mánuð og 11% á árinu.