Samkvæmt árshlutauppgjöri málmleitarfélagsins Amaroq Minerals vinnur félagið hörðum höndum að frekari uppbyggingu í Nalunaq-gullnámunni í Suður-Grænlandi.
Stöðugur framgangur er á verkefninu þrátt fyrir árstíðabundnar áskoranir.
„Eins og fram kom í kynningu okkar á ársuppgjöri 2024 leiddu veðurtengdar aðstæður á fyrsta ársfjórðungi til þess að það hægðist á framkvæmdum við vinnslustöð okkar í Nalunaq. Ég er aftur á móti afar ánægður með þróunina undanfarið og höfum við sýnt góðan framgang í vinnslustöðinni en ekki síður í námuvinnslunni.,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, í uppgjörinu.
Á fjórðungnum hélt gangsetning og prófun einstakra eininga gullvinnslustöðvarinnar áfram.
Áhersla var lögð á að prófa hverja einingu fyrir sig með það markmið að ljúka gangsetningu á fyrsta fasa og hefja undirbúning að öðrum fasa seinna á árinu.
Einnig náðist að sprengja um 220 tonn á dag af gullberandi efni undir lok tímabilsins.
„Við nýttum vetrarmánuðina til að vinna okkur upp Mountain Block-svæðið í fjallinu og greiða fyrir aðgengi að gullberandi efni, og undir lok ársfjórðungsins náðum við að sprengja 220 tonn á dag af gullberandi efni, sem er safnað saman fyrir vinnslu. Þá erum við að ganga frá samningi um árangursviðmið við námuverktakann okkar Thyssen sem styður við markmið okkar um að vinna 300 tonn á dag í vinnslustöðinni á þessu ári,” segir Eldur.
Í febrúar kynnti Amaroq uppfært auðlindamat fyrir Nalunaq-námuna sem sýndi fram á 51% aukningu í heildargullmagni, eða alls 326.300 únsur í „Inferred“ flokki og í fyrsta sinn 157.600 únsur í „Indicated“ flokki.
Meðalstyrkur í síðastnefnda flokknum var 32,4 grömm á tonn. Í kjölfar tímabilsins bárust niðurstöður úr hefðbundnum brennslumælingum (e. fire assay) sem sýndu fram á marktæka hækkun á gildi borholna.
Meðal annars náðust 78,3 grömm af gulli á tonn yfir 1,72 metra lengd í einni holu.
„Ég er ánægður með framganginn í verkefninu undanfarið og með hækkandi sól getur teymið unnið á fullum afköstum við framkvæmdir og rannsóknir til að ná markmiðum okkar fyrir árið,” segir Eldur.
Sterk lausafjárstaða
Rekstrartap tímabilsins nam 4,4 milljónum kanadadollara, sem er veruleg lækkun frá sama tímabili í fyrra (9,2 milljónir). Samhliða náði félagið í tekjur að fjárhæð 643 þúsund dali vegna stjórnunarverkefna tengdum Gardaq-samstarfsverkefninu.
Lausafjárstaða félagsins var sterk í lok fjórðungsins, með 23,4 milljónir dala í lausafé, þar af 16,7 milljónir í reiðufé og aðgang að ónotaðri 23,7 milljóna dala lánalínu, að frádregnum 17 milljónum í viðskiptaskuldir.
Áframhaldandi framkvæmdir við vinnslustöð og gangsetningu fyrsta fasa eru á áætlun.
Fyrirtækið miðar að því að ná framleiðslugetu upp á 300 tonn á dag á fjórða ársfjórðungi. Vegna eðlis gangsetningar og tilraunavinnslu er árleg framleiðsluspá sett í bilinu 5 til 20 þúsund únsur gulls.
Þá munu framkvæmdir við annan fasa hefjast á síðari hluta ársins, sem einnig miðar að því að hækka framleiðslugetu í 450 tonn á dag.