Sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri málm­leitarfélagsins Amaroq Minerals vinnur félagið hörðum höndum að frekari upp­byggingu í Nalunaq-gullnámunni í Suður-Græn­landi.

Stöðugur fram­gangur er á verk­efninu þrátt fyrir ár­stíða­bundnar áskoranir.

„Eins og fram kom í kynningu okkar á ársuppgjöri 2024 leiddu veðurtengdar aðstæður á fyrsta ársfjórðungi til þess að það hægðist á framkvæmdum við vinnslustöð okkar í Nalunaq. Ég er aftur á móti afar ánægður með þróunina undanfarið og höfum við sýnt góðan framgang í vinnslustöðinni en ekki síður í námuvinnslunni.,“ segir Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq Minerals, í upp­gjörinu.

Á fjórðungnum hélt gang­setning og prófun ein­stakra eininga gull­vinnslu­stöðvarinnar áfram.

Áhersla var lögð á að prófa hverja einingu fyrir sig með það mark­mið að ljúka gang­setningu á fyrsta fasa og hefja undir­búning að öðrum fasa seinna á árinu.

Einnig náðist að sprengja um 220 tonn á dag af gull­berandi efni undir lok tíma­bilsins.

„Við nýttum vetrar­mánuðina til að vinna okkur upp Mountain Block-svæðið í fjallinu og greiða fyrir að­gengi að gull­berandi efni, og undir lok árs­fjórðungsins náðum við að sprengja 220 tonn á dag af gull­berandi efni, sem er safnað saman fyrir vinnslu. Þá erum við að ganga frá samningi um árangur­sviðmið við námu­verk­takann okkar Thys­sen sem styður við mark­mið okkar um að vinna 300 tonn á dag í vinnslu­stöðinni á þessu ári,” segir Eldur.

Í febrúar kynnti Amaroq upp­fært auðlinda­mat fyrir Nalunaq-námuna sem sýndi fram á 51% aukningu í heildar­gull­magni, eða alls 326.300 únsur í „Infer­red“ flokki og í fyrsta sinn 157.600 únsur í „Indi­ca­ted“ flokki.

Meðal­styrkur í síðast­nefnda flokknum var 32,4 grömm á tonn. Í kjölfar tíma­bilsins bárust niður­stöður úr hefðbundnum brennslumælingum (e. fire assay) sem sýndu fram á marktæka hækkun á gildi bor­holna.

Meðal annars náðust 78,3 grömm af gulli á tonn yfir 1,72 metra lengd í einni holu.

„Ég er ánægður með fram­ganginn í verk­efninu undan­farið og með hækkandi sól getur teymið unnið á fullum af­köstum við fram­kvæmdir og rannsóknir til að ná mark­miðum okkar fyrir árið,” segir Eldur.

Sterk lausa­fjár­staða

Rekstrar­tap tíma­bilsins nam 4,4 milljónum kana­da­dollara, sem er veru­leg lækkun frá sama tíma­bili í fyrra (9,2 milljónir). Sam­hliða náði félagið í tekjur að fjár­hæð 643 þúsund dali vegna stjórnunar­verk­efna tengdum Gardaq-sam­starfs­verk­efninu.

Lausa­fjár­staða félagsins var sterk í lok fjórðungsins, með 23,4 milljónir dala í lausafé, þar af 16,7 milljónir í reiðufé og að­gang að ónotaðri 23,7 milljóna dala lána­línu, að frá­dregnum 17 milljónum í við­skipta­skuldir.

Áfram­haldandi fram­kvæmdir við vinnslu­stöð og gang­setningu fyrsta fasa eru á áætlun.

Fyrir­tækið miðar að því að ná fram­leiðslu­getu upp á 300 tonn á dag á fjórða árs­fjórðungi. Vegna eðlis gang­setningar og til­rauna­vinnslu er ár­leg fram­leiðslu­spá sett í bilinu 5 til 20 þúsund únsur gulls.

Þá munu fram­kvæmdir við annan fasa hefjast á síðari hluta ársins, sem einnig miðar að því að hækka fram­leiðslu­getu í 450 tonn á dag.