Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að Ísland sé í sérstöðu hvað það varðar að efnahagshorfur eru góðar ólíkt flestum öðrum Evrópuþjóðum þó að við séum að glíma við mikla verðbólgu líkt og Evrópa.

„Hjá okkur hefur verðbólga líka verið að aukast en í öllum spám sem við gefum út þá eru hagvaxtarhorfur alltaf að batna. Það virðist alltaf ganga betur og betur hjá okkur, það er alltaf meiri hagvöxtur,“ sagði Ásgeir á opnum fundi þar sem hann og Gunnar Jakobsson ræddu um yfirlýsingu Fjármálastöðugleikanefndar.

„Það bendir til þess að verðbólgan á Íslandi sé aðeins önnur heldur en erlendis. Verðbólgan úti gæti orðið kreppuverðbólga. Hjá okkur er það gömul íslensk þensluverðbólga sem flestir þekkja.“

Ásgeir tók þó fram að ólíkt áður væri ekki að skapast hér lánabóla. Aukinn viðskiptahalli, sem skýrist m.a. af aukinni einkaneyslu, megi að einhverju leyti rekja til uppsafnaðs sparnaðar heimila, m.a. á Covid-tímunum.

„Þetta er dálítið öðruvísi heldur en þessar uppsveiflur sem hafa verið síðustu 30-40 árin, sem var mjög gjarnan að heimilin tóku lán til þess að eyða […] Fólkið á peningana til þess að eyða þeim.“

Seðlabankafólk eins og leiðinlega fólkið í partíinu

Ásgeir lýsir því að Seðlabankinn sé kominn í þá stöðu að allar góðar fréttir séu vondar fréttir. Ef hagvöxtur eykst og mikið góðæri sé í landinu „þá þurfum við að vera leiðinleg hér í þessum banka“.

„Það er alltaf sagt með seðlabankafólk að það sé fólkið í partíinu sem reynir að taka púnsskálarnar burt þegar partíið er loksins farið að vera almennilegt og farið að hitna. Þegar fólk er farið að komast í stuð, þá reynir Seðlabankinn að taka áfengi burt sem er ekki vinsælt. Svoleiðis fólk er ekki vinsælt í partíum.“

Ásgeir bendir hins vegar á að skuldir heimilanna hafi ekki vaxið í takt við hækkun fasteignaverðs „sem er í rauninni alveg ótrúlegt“. Skuldir heimilanna af landsframleiðslu og tekjum séu nokkuð stöðugar. Sömuleiðis hafi skuldir fyrirtækja heldur ekki vaxið.

„Ísland er í sérstöðu hvað varðar önnur lönd Evrópu hvað við erum lítið skuldsett, það á við um alla aðila. Bankakerfið er ekki gírað, þ.e. mikið eigið fé. Ríkissjóður er heldur ekki skuldsettur þó við myndum gjarnan vilja að það yrði sparað aðeins meiri pening þar,“ segir Ásgeir.

„Það er ansi mikill munur að fara í gegnum óróa á fjármálamörkuðum ef maður skuldar ekki mikinn pening sem er alveg öfugt við það sem gerðist árið 2008 þegar við vorum skuldsett upp í rjáfur. Þannig við erum í góðri stöðu, okkur gengur vel. En þetta er að einhverju leyti hin hefðbundna íslenska þensla sem er í gangi.“

Hvar eru Samtök sparifjáreigenda?

Í umræðum um verkaskiptingu innan Seðlabankans í núverandi efnahagsaðstæðum sagði Ásgeir að það liggi aðallega á herðum Peningastefnunefndar að bregðast við þenslu og auknum viðskiptahalla.

„Fókusinn hefur verið á að gera fjármögnun dýrari. Kannski ættum við meira að hugsa um að gera sparnað hagstæðari með einhverjum hætti. Það er ekki beinlínis meðmæli með okkur að það eru neikvæðir raunvextir. Við höfum verið að brenna upp sparnað fólks.“

Hann bætti við að það sé kannski viðbúið að á meðan raunvextir eru neikvæðir þá hvetji það fólk til þess að eyða peningum sínum.

„Ég veit ekki hvar Samtök sparifjáreigenda eru, af hverju það eru ekki mótmæli hjá þeim hérna fyrir utan.“