Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður, er sjálfstæður sjóður í eigu íslenska ríkisins og hefur sjóðurinn fjárfest í fjórum vísisjóðum í samstarfi við aðra sjóðafjárfesta. Heildarskuldbinding Kríu nemur 3,2 milljörðum króna í Frumtaki 3 slhf., Eyri Vexti slhf., Crowberry II slhf. og Frumtaki 4 slhf. Heildarstærð sjóðanna er yfir 40 milljarðar króna, en samanlagt hafa þeir fjárfest í fjölbreyttu safni sprotafyrirtækja fyrir meira en 27 milljarða króna. Þar af hafa vísisjóðirnir fjárfest fyrir 10,3 milljarða og fengið með sér meðfjárfesta (e. co-investors) fyrir 17,5 milljarða króna.

Meginmarkmið Kríu er að styðja við uppbyggingu á virku, alþjóðlega samkeppnishæfu fjármögnunarumhverfi fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki. Vísisjóðirnir í eignasafni Kríu hafa fjárfest í 40 sprotafyrirtækjum á rúmlega þremur árum, þar af 27 sprotafyrirtækjum á Íslandi. Hjá þessum 40 félögum starfa yfir 1.100 manns, þarf af um 650 manns hjá íslenskum sprotafyrirtækjum.

Við stofnun Kríu var markmiðið að sjóðurinn fjárfesti fyrir 8 milljarða króna í sprotasjóði en eins og fyrr segir hefur Kría þegar fjárfest fyrir 3,2 milljarða í slíka sjóði. Síðasta ár var aftur á móti síðasta starfsár sjóðsins í fyrri mynd því um áramótin voru Kría og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sameinuð undir nafninu Nýsköpunarsjóðurinn Kría. Hlutverk sjóðsins er að auka framboð fjármagns og fjármögnunarkosta fyrir sprotaog nýsköpunarfyrirtæki og auka viðnámsþrótt fjármögnunarumhverfisins. Hann hefur jafnframt það hlutverk að hvetja, með fjárfestingum sínum, einkafjárfesta til þátttöku í fjármögnun nýsköpunar.

Fyrst var greint frá sameiningunni í lok árs 2023 í tilkynningu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Þar kom fram að vinna hefði farið fram innan ráðuneytisins um sameiningu og endurskoðun sjóða sem falla undir málefnasvið þess. Niðurstaða þeirrar vinnu var að fyrrnefndir tveir sjóðir, sem höfðu það hlutverk að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og sérhæfðum sjóðasjóðum, voru sameinaðir.

Hrönn stýrir sameinuðum sjóði

Í síðustu viku var greint frá því að Hrönn Greipsdóttir hefði verið skipuð í starf forstjóra Nýsköpunarsjóðsins Kríu en hún var áður framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Alls bárust 39 umsóknir um starfið en 25 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Að loknu ítarlegu matsferli lagði stjórn sjóðsins til við ráðherra að Hrönn yrði ráðin í forstjórastarfið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.