Kristján Arason, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi, þáði 413 milljónir króna í laun og bónusa árin 2006 og 2007. Síðara árið var hann annar launahæsti starfsmaður bankans á eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, þáverandi forstjóra.
Kristján var á þessum árum framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu Kaupþings sem bar meðal annars ábyrgð á persónulegum fjármálum stórra viðskiptavina bankans. Hann er eiginmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hún sat í ríkisstjórn á þeim tíma sem hann þénaði milljónirnar 413.
Með tæpar 24 milljónir króna á mánuði 2007
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að Kristján hafi þegið 10.978.000 krónur á mánuði í laun og bónusa á árinu 2006, eða 131.736.000 krónur í árslaun. Árið 2007 jukust tekjur hans um meira en 100% þegar hann þáði 23.438.000 krónur á mánuði, eða 281.256.000 krónur yfir árið í laun og bónusa. Á þessum árum var Kristján framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu Kaupþings.
Hann tók síðan við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs í mars 2008. Kristján er ekki á lista yfir tíu launahæstu starfsmenn Kaupþings það ár samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Skulduðu milljarða í árslok 2008
Auk himinhárra launa og bónusa naut Kristján mikillar lánafyrirgreiðslu hjá bankanum sem hann starfaði hjá. Samkvæmt skýrslunni námu persónulegar skuldir Kristjáns hjá Kaupþingi 1.213 milljónum króna árið 2008. Sú skuld var færð inn í félag í hans eigu, 7 hægri ehf., í febrúar 2008 og við það losnaði Kristján við persónulega ábyrgð á skuldum félagsins. Hann var eini starfsmaður Kaupþings sem fékk að flytja skuldir sínar vegna hlutabréfakaupa yfir í eignarhaldsfélag á þessum tíma. Þrír aðrir lykilstarfsmenn fengu síðan að gera slíkt hið sama í október 2008.
Samkvæmt rannsóknarskýrslunni skuldaði 7 hægri ehf. 1.806 milljónir króna á árinu 2008. Í ársreikningi félagsins fyrir það ár nema skammtímaskuldir hins vegar rúmlega tveimur milljörðum króna og tap félagsins á því ári nam 747 milljónum króna.
Uppfærsla klukkan 13:35:
Vegna athugasemda hefur ofangreindri frétt verið uppfærð. Þar voru upphaflega skuldir Kristjáns Arasonar og 7 hægri ehf. lagðar saman. Hið rétta er að persónulegar skuldir Kristjáns hjá Kaupþingi voru færðar inn í 7 hægri ehf. í febrúar 2008. Þetta atriði hefur verið leiðrétt.