Kristján Ra Kristjánsson athafnamaður hefur gengið frá sölu á leikhúsinu Göta Lejon í Stokkhólmi til alþjóðlega afþreyingarfyrirtækisins Live Nation International Inc. Kristján Ra hefur rekið leikhúsið frá árinu 2008.
Í fyrstu rak hann það sem meðeigandi en nú við söluna er hann eini eigandi móðurfélags þess. Ásamt því að reka leikhúsið hefur Kristján Ra rekið tvö önnur félög í upplifunargeiranum undanfarinn einn og hálfan áratuginn.
Eins og önnur leikhús mátti Göta Lejon þola talsvert tekjufall í heimsfaraldrinum. Rekstur leikhússins gekk vel fyrir faraldur en til marks um það velti það um 37 milljónum sænskra króna, eða sem nemur um hálfum milljarði íslenskra króna, rekstrarárið september 2018 til september 2019 og afkoma nam um 10 milljónum sænskra króna. Kaupverðið er ekki gefið upp en það er gert á grundvelli afkomu félagsins fyrir heimsfaraldur.
Kaupendur hafa í hyggju að ráðast í verulegar breytingar á leikhúsinu, sem undirbúnar voru af seljanda og ráðgjöfum hans sem hluti af framtíðarsýn leikhússins og bransans. Viðskiptin munu ekki hafa áhrif á þær sýningar sem þegar eru í gangi hjá Göta Lejon. Live Nation hefur í hyggju að hefja framkvæmdir í vor og stefna meðal annars á að gera aðstöðuna þannig að bæði sé hægt að taka á móti áhorfendum í stæði, sem og í sæti eins og tíðkast hefur. Inngangar, barir og veitingastaðir leikhússins munu einnig fá andlitslyftingu. Stefnt er á að leikhúsið opni svo á ný að breytingum loknum í byrjun næsta árs.
Saga Göta Lejon spannar nærri heila öld. Leikhúsið opnaði dyr sínar fyrir almenningi árið 1928 og hafa ýmsar goðsagnir úr skemmtanabransanum stigið á stokk innan veggja leikhússins á þessum 95 árum. Má þar nefna hinar heimsfrægu rokksveitir Metallica og AC/DC.
Fréttin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.