Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ), fær greidd laun frá sambandinu fram á sumar. RÚV greinir frá.
Kristján Þórður segir í samtali við RÚV að ekki sé um að ræða biðlaun heldur að verið sé að gera upp ráðningarkjör samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi.
Hann hafi verið við vinnu til upphafs þessa mánaðar og fái greiddan uppsagnarfrest til maí eða júní. Ekki sé krafist vinnuframlags frá honum.
Haft er eftir Sigrúnu Sigurðardóttur, skrifstofustjóri RSÍ, að Kristján Þórður verði starfsfólki innan handar við tilfærslu verkefna til nýs formanns. Búið sé að ganga frá starfslokasamningi við Kristján og hann fái greitt út júní.
Kristján Þórður tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann væri hættur sem formaður RSÍ, eftir að hafa gengt formennskunni frá árinu 2011, í ljósi þess að hann hlaut kjör á þing í lok síðasta árs.
