Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, greiddi Skattinum tæpar 25 milljónir í vor. Heimildin greinir frá því að tilmæli höfðu borist til allra þeirra sem höfðu starfað hjá Kviku banka og höfðu fjárfest í áskriftarréttindum eða kaupréttindum en Skatturinn mat það að það ætti að greiða launaskatt af hagnaðinum, en ekki fjármagnstekjuskatt.
Í samtali við Heimildina segir Kristrún að hún hafi greitt fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum á sínum tíma í samræmi við leiðbeiningar frá vinnuveitanda en Kristrún starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku banka frá 2018 til 2021.
Hagnaður Kristrúnar af áskriftarréttindum í bankanum hafi alls numið um 101 milljón króna og greiddi hún í kjölfar 22 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt af þeirri upphæð. Hins vegar hafi það verið til skoðunar hjá Skattinum hvort rétt væri að greiða fjármagnstekjuskatt eða venjulegan tekjuskatt af þeim hagnaði.
„Ég geri ekki athugasemd við það mat. Ég bað um að fá að greiða mismuninn strax og hef þegar gert það. Þegar upp var staðið fékk ég um 101 milljón króna út úr þessari fjárfestingu og hef nú þegar greitt 46,25% af því í skatt. Það bættust við tæpar 25 milljónir króna núna í vor sem ég greiddi vegna mismunar á fjármagnstekju- og launaskatti, eftir að þessi tilmæli bárust frá Skattinum,“ segir Kristrún í samtali við Heimildina.
Áskriftarréttindi Kristrúnar í Kviku banka voru talsvert til umræðu í aðdraganda þingkosninga árið 2021 þegar Kristrún hafði tekið efsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.