Halla Tómasdóttir forseti Íslands hefur falið Kristrúnu Frostadóttur umboð til stjórnarmyndunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.
Forsetinn fundaði með forystufólki þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi eftir síðustu kosningar. Í ljósi þess fundar og á grundvelli kosningaúrslita boðaði Halla Tómasdóttir formann Samfylkingarinnar aftur á fund í dag.
„Eftir samtal okkar á þeim fundi hef ég falið Kristrúnu Frostadóttur umboð til stjórnarmyndunar. Kristrún hefur tjáð mér að hún hafi nú þegar átt samtöl við formenn annarra flokka sem einnig hafa upplýst mig um að þeir séu reiðubúnir til formlegra viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar með Samfylkingunni,“ segir í yfirlýsingu frá forseta.
Kristrún mun hafa sagt við blaðamenn eftir fundinn að hún hygðist sækjast eftir viðræðum við formenn Viðreisnar og Flokks fólksins.