Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita 71. grein þingskapalaga, svonefndu kjarnorkuákvæði, og takmarka þannig ræðutíma þingmanna til að koma veiðigjaldafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í atkvæðagreiðslu.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, tilkynnti um þetta við upphaf þingfundar í morgun.
Þetta er í fyrsta sinn sem umrætt ákvæði er notað frá árinu 1959, eða fyrir 66 árum síðan. Ákvæðið var síðast beitt árið 1959 til að tryggja afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót og þar áður árið 1949 þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið.
Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að frumvarp atvinnuvegaráðherra um verulega hækkun veiðigjalda varð mest rædda þingmál síðan málstofur Alþingis voru sameinaðar í eina árið 1991. Þórunn benti á að umræður um veiðigjaldafrumvarpið hefðu staðið í heildina yfir í 160 klukkustundir með 3.392 ræðum.
„Forseti telur að enn sé langt á milli manna og að ekki verði lengra komist í viðræðum þingflokksformanna eða formanna stjórnmálaflokkana um samkomulag um afgreiðslu málsins. Ljóst er af mati forseta að þingmenn hafa haft rúman tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á málið og eftir atvikum að koma fram með tillögur að breytingum á því,“ sagði Þórunn.
Í umræðum á þinginu í gærmorgun gagnrýndu stjórnarliðar harðlega ákvörðun Hildar Sverrisdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins og fimmta varaforseta Alþingis, að slíta þingfundi rétt fyrir miðnætti á miðvikudaginn.
Í upphafi þingfundar í gær stigu formenn stjórnarflokkanna þriggja stigu upp í pontu og töluðu um fordæmalausa stöðu í íslenskum stjórnmálum vegna málþófs í veiðigjaldamálinu.
Kristrún sagði stöðuna alvarlega fyrir lýðræðið og stjórnskipan landsins. „ Það er skylda mín sem forsætisráðherra að standa vörð um lýðræðið í landinu.“ (sjá ræðu).
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, sagði Hildi hafi með ákvörðun sinni að slíta þingfundi „verið að klippa á lýðræðið“ og lýsti Sjálfstæðisflokknum sem „jaðarflokki“. „Það sjá allir að þetta er skrumskæling á lýðræðinu,“ sagði Þorgerður (sjá ræðu).
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, lýsti ákvörðun Hildar sem „valdaráni“.