Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti í dag nýjasta útspil flokksins sem ber yfirskriftina Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum á fréttamannafundi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Útspilið er sagt afrakstur metnaðarfulls málefnastarfs síðustu sex mánaða.

Í bæklingnum eru útlistuð markmið og áform Samfylkingarinnar komist flokkurinn í ríkisstjórn. Í stuttu máli horfir Samfylkingin til að auka raforkuframleiðslu, auka fjárfestingar í samgöngum og taka upp almenn auðlindagjöld „að hætti Norðmanna“.

Þetta er önnur aðgerðaráætlunin sem Kristrún kynnir á stuttum tíma en í október síðastliðnum kynnti hún stefnu Samfylkingarinnar í heilbrigðis- og öldrunarmálum.

Auka raforkuframleiðslu um sem nemur einni Kárahnjúkavirkjun á ári

Samfylkingin leggur í bæklingnum fram markmið til 10 ára um að auka ársframleiðslu á raforku um 5 TWh, sem bent er á að svari til rúmlega einnar Kárahnjúkavirkjunar. Með þessu sé stutt við verðmætasköpun og orkuskipti.

„Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa framkvæmdir hafist við 0 jarðgöng og 0 nýjar virkjanir yfir 10 MW– hvort sem litið er til virkjana sem nýta vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa. Samfylkingin hefur einbeittan vilja til verklegra framkvæmda í orku- og samgöngumálum.“

Eins horfir Samfylkingin til þess að með bættri orkunýtni sé hægt að ná fram allt að 1 TWh á sama tíma.

„Lagt er til að ríkisstjórn hvers tíma leggi fram skýr markmið um orkuöflun og að rammaáætlun verði afgreidd á Alþingi nógu reglulega til að hægt sé að standa undir þeim markmiðum – eða orkuvilja. Þá vill Samfylkingin fjölga virkjunarkostum í nýtingarflokki í samræmi við tillögur verkefnastjórnar rammaáætlunar og ráðast í lagabreytingar sem eru til þess fallnar að hraða leyfisveitingum vegna framkvæmda sem hafa verið samþykktar í nýtingarflokk.“

Samfylkingin segir lykilatriði í tillögunum vera að taka upp auðlindagjöldum af orkuvinnslu til þjóðar og nærsamfélags, m.a. til að sátt um framkvæmdir. Lagt sé til að greitt verði fyrir uppbyggingu á flutningskerfi raforku með því að afnema undanþágu frá fasteignasköttum til sveitarfélaga af orkuflutningsmannvirkjum.

Vilja framkvæmdir við 1 til 2 jarðgöng á hverjum tíma

Í bæklingnum er einnig fjallað um áform í samgöngumálum. Samfylkingin segist vilja auka fjárfestingar í samgöngum hér á landi úr núverandi 0,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) í um 1% VLF. Þannig yrðu farið aftur upp í meðaltal OECD-ríkja fyrir árið 2030.

Flokkurinn talar þannig fyrir að rekstur Strætós sé styrktur enn frekar á meðan beðið sé eftir Borgarlínunni. Þá sé lykilatriði að fjármagna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2019 til að draga úr umferðartöfum og „bæta flæði allra ferðamáta.“

Lögð er áhersla á að byrjað verði aftur að bora jarðgöng og að alltaf séu framkvæmdir við 1 til 2 jarðgöng í gangi á hverjum tíma.

„Samfylkingin vill að framkvæmdir í samgöngumálum verði áfram fjármagnaðar með almennum hætti í gegnum ríkissjóð. Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum getur sértæk staðbundin gjaldtaka þó komið að gagni og verið réttlætanleg. Mikilvægast er að frumkvæði að slíkri gjaldtöku komi frá nærsamfélagi, heimafólki sjálfu. Þá þarf markmiðið með gjaldtökunni að vera skýrt og tekjurnar af henni að nýtast beint til að ná settu marki.“

Boða almenn auðlindagjöld og hærra veiðigjald

Samfylkingin segir að á Íslandi sé ekki til staðar auðlindastefna eða heildarsýn á nýtingu náttúruauðlinda. Flokkurinn heitir því að koma á fót almennum auðlindagjöldum á sínu fyrsta kjörtímabili, komist hann í ríkisstjórn.

Í fyrstu verði tekin auðlindagjöld í sjávarútvegi, fiskeldi, orkuvinnslu og ferðaþjónustu „sem séu skynsamleg og réttlát“.

Í sjávarútvegi kallar Samfylkingin eftir hærra veiðigjaldi með þrepaskiptingu „til að ná strax stærri hluta af auðlindarentu sem þar myndast til þjóðarinnar“. Þegar kemur að fiskeldi í sjó er lögð áhersla á gjaldtöku fyrir tímabundin rekstrarleyfi.

Þá er lagt til að tekinn verði upp auðlindarentuskattur eða vinnslugjald af orkuvinnslu – og að tekið verði auðlindagjald með álagsstýringu fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum landsins.