Fjártæknifyrirtækið Kríta hefur gengið frá fjögurra milljarða króna fjármögnunarsamningi við evrópska sjóðinn WinYield General Partners. Samningurinn styrkir lánabók Kríta en evrópski sjóðurinn verður jafnframt hluthafi í félaginu.
Viðskiptavinir Kríta eru meðal eru fyrirtæki í ferðaþjónustu, heildverslun, matvælaframleiðslu, sem og fyrirtæki í innflutningi, ráðgjöf og byggingastarfsemi.
„Kríta er fjártæknifyrirtæki sem brýtur upp gamaldags lánakerfi bankanna og setur hraða og stafrænan einfaldleika í forgrunn. Fjármagn sem annars myndi sitja fast í ógreiddum reikningum er sett í umferð, sem skapar aukinn sveigjanleika og tækifæri fyrir fyrirtæki,“ segir Stefán Jökull Stefánsson, stjórnarformaður Kríta.
Fyrirtæki geta fengið allt að 100 milljón króna fjármögnun hjá Kríta með því að breyta ógreiddum reikningum í laust fé fyrir reksturinn. Fyrirtæki senda reikninga á viðskiptavini eins og venjulega sem birtast um leið á þeirra vefsvæði á heimasíðu Krítu.
Þar eru einn eða fleiri reikningar valdir til fjármögnunar og innan 24 klukkustunda berst lánstilboð sem stjórnandi getur samþykkt eða hafnað. Þá geta fyrirtæki einnig fengið hefðbundið fyrirtækjalán.
Fabricio Mercier, meðeigandi hjá WinYield General Partners, segir að Kríta hafi sterka stöðu á Íslandi og því hafi sjóðurinn tryggt fyrirtækinu fjármögnun.
„Kríta hefur farsæla sögu sem fjártæknifyrirtæki og fjármögnunin frá WinYield mun hjálpa fyrirtækinu að vaxa enn frekar og verða leiðandi lánafyrirtæki fyrir fjölda fyrirtækja á Íslandi.“