Gjaldþrotaskiptum á þrotabúi fiskvinnslufyrirtækisins Frostfisks lauk í byrjun mánaðar en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í lok júní 2018 með úrskurði héraðsdóms Suðurlands.
Lýstar kröfur í búið námu rúmum milljarði króna en félagið rak fiskvinnslu í Þorlákshöfn og fiskþurrkun i Ólafsvík.
Samkvæmt úthlutunargerð greiddust 350 þúsund krónur upp í búskröfur og 300 milljónir króna upp í veðkröfur. Þá greiddust samtals 138 milljónir upp í forgangskröfur, eða 75,6 hundraðshlutar, en þar af höfðu kr. 109 milljónir áður verið greiddar með þremur forúthlutunum.
Síðasti ársreikningur félagsins, frá árinu 2016, sýndi 320 milljóna tap af rekstrinum en velta félagsins dróst saman um 13,8% milli ára og nam tæpum 4,6 milljörðum króna.
„Rekstur ársins 2016 gekk illa sem orskaðist af styrkingu íslensku krónunnar, lokun á Rússlandsmarkaði og sölutregðu á þurrkuðum fiskafurðum til Nígeríu sökum efnahagsástands í landinu. Einnig hafði verkfall sjómanna veruleg áhrif á árinu 2016 auk þess sem kjarasamningsbundin laun hækkuðu verulega,“ segir í skýrslu stjórnar.
Steingrímur Leifsson og Þorgrímur Leifsson áttu rúman 40% hlut í félaginu hvor á móti Úlfhildi og Matthildi Leifsdætrum sem áttu báðar rúmlega 9% hlut.
„Á haustmánuðum 2016 var gripið til hagræðingaraðgerða með einföldun á vinnslu og verulegri fækkun starfsfólks og hafa þær aðgerðir skilað verulegri lækkun kostnaðar. Verkfall sjómanna í byrjun árs 2017 og áframhaldandi styrking íslensku krónunnar á upphafsmánðum ársins hefur haft veruleg áhrif á afkomu félagsins fyrstu mánuði ársins 2017 en jákvæðu fréttirnar eru að staða á mörkuðum í Nígeríu hefur batnað á árinu. Það er mat stjórnar að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til muni skila sér í því að afkoma félagsins verði viðunandi,” segir enn fremur í skýrslu stjórnar.