Gjaldþrota­skiptum á þrota­búi fisk­vinnslu­fyrir­tækisins Frost­fisks lauk í byrjun mánaðar en félagið var tekið til gjaldþrota­skipta í lok júní 2018 með úr­skurði héraðs­dóms Suður­lands.

Lýstar kröfur í búið námu rúmum milljarði króna en félagið rak fiskvinnslu í Þorlákshöfn og fiskþurrkun i Ólafsvík.

Sam­kvæmt út­hlutunar­gerð greiddust 350 þúsund krónur upp í búskröfur og 300 milljónir króna upp í veðkröfur. Þá greiddust sam­tals 138 milljónir upp í for­gang­skröfur, eða 75,6 hundraðs­hlutar, en þar af höfðu kr. 109 milljónir áður verið greiddar með þremur forút­hlutunum.

Síðasti árs­reikningur félagsins, frá árinu 2016, sýndi 320 milljóna tap af rekstrinum en velta félagsins dróst saman um 13,8% milli ára og nam tæpum 4,6 milljörðum króna.

„Rekstur ársins 2016 gekk illa sem or­skaðist af styrkingu ís­lensku krónunnar, lokun á Rúss­lands­markaði og sölutregðu á þurrkuðum fiska­furðum til Ní­geríu sökum efna­hags­ástands í landinu. Einnig hafði verk­fall sjómanna veru­leg áhrif á árinu 2016 auk þess sem kjara­samnings­bundin laun hækkuðu veru­lega,“ segir í skýrslu stjórnar.

Stein­grímur Leifs­son og Þor­grímur Leifs­son áttu rúman 40% hlut í félaginu hvor á móti Úlfhildi og Matthildi Leifsdætrum sem áttu báðar rúmlega 9% hlut.

„Á haust­mánuðum 2016 var gripið til hag­ræðingarað­gerða með ein­földun á vinnslu og veru­legri fækkun starfs­fólks og hafa þær að­gerðir skilað veru­legri lækkun kostnaðar. Verk­fall sjómanna í byrjun árs 2017 og áfram­haldandi styrking ís­lensku krónunnar á upp­hafsmánðum ársins hefur haft veru­leg áhrif á af­komu félagsins fyrstu mánuði ársins 2017 en jákvæðu fréttirnar eru að staða á mörkuðum í Ní­geríu hefur batnað á árinu. Það er mat stjórnar að þær að­gerðir sem gripið hefur verið til muni skila sér í því að af­koma félagsins verði viðunandi,” segir enn fremur í skýrslu stjórnar.