Íslenska krónan hefur ekki verið sterkari gagnvart Bandaríkjadal síðan í júlí í fyrra en miðgengi Bandaríkjadals stendur í 134,7 krónum er þetta er skrifað.
Krónan hefur styrkt sig um 3,5% gagnvart dal á síðustu sex mánuðum og hefur dalurinn farið úr 139,59 í 134,7 krónur.
Á sama tímabili hefur evran styrkt sig örlítið gagnvart krónunni en stöðugleiki hefur einkennt gjaldeyrismarkaðinn það sem af er ári og hefur Seðlabankinn ekki beitt inngripum síðan í febrúar.
Samkvæmt Seðlabankanum hefur gengisflökt verið töluvert undir langtímameðaltali og velta á millibankamarkaði með gjaldeyri lítil.
Það kann að benda til jafnvægis í gjaldeyrisflæði til og frá landinu en viðskiptabankarnir leita á gjaldeyrismarkað þegar ójafnvægi er í inn- og útflæði gjaldeyris.
Gengi krónunnar tók að lækka síðla sumars og hafði lækkað um ríflega 2% þegar mest lét í byrjun september. Um helmingur lækkunarinnar hefur nú gengið til baka.
Hrein framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabankanna lækkaði um samtals 30 milljarða í júlí og ágúst og afleiðusamningum með krónuna fækkaði um fjórðung á sama tíma.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 912 milljörðum í lok ágúst eða sem nemur 21% af landsframleiðslu. Frá áramótum hafði forðinn stækkað um 120 milljarða eða 2,5 prósent af landsframleiðslu, sem skýrist fyrst og fremst af útgáfu ríkissjóðs á skuldabréfum í evrum.
Ríkissjóður gaf út grænt skuldabréf að fjárhæð 750 milljónir evra, um 111 milljarða, í mars og kynjað skuldabréf að fjárhæð 50 milljónir evra, um 7,5 milljarða, í júní.
Þá greiddi ríkissjóður eftirstöðvar erlends skuldabréfs að fjárhæð 241 milljón evra sem var á gjalddaga í júní.
Gjaldeyrisforðinn stækkaði einnig í viðskiptum Seðlabankans á millibankamarkaði með gjaldeyri, vegna arðgreiðslu Landsvirkjunar til ríkissjóðs í erlendum gjaldeyri og vegna veikingar krónunnar.