Íslenska krónan hefur ekki verið veikari allt þetta ár en í dag. Miðgengi krónunnar á móti evru stendur nú í 150,7 krónum.
Krónan hefur nánast verið í stöðugum veikingarfasa frá lokum október. Mikil veiking varð í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu en sú veiking gekk til baka á mánuði.
Ýmsu hefur verið kennt um þessa miklu veikingu. Má þar helst nefna:
- Mikla einkaneyslu á Íslandi, bæði innkaup á vörum og ferðalög
- Kaup lífeyrissjóðanna á erlendum gjaldmiðlum til fjárfestinga erlendis
- Kaup Landsbankans á gjaldeyri til að bregðast við versnandi lánakjörum erlendis. Þau kaup hafa að því er virðist stöðvast
- Tregða útflutningsaðila til að flytja gjaldeyri heim
Landsbankinn er eini aðilinn á markaðnum sem birtir spár um gengi krónunnar. Nýjasta spá bankans er frá því í október. Þá spáði bankinn að ein evra myndi kosta 139 krónur um áramótin. Í dag munar 11,7 krónum að sú spá rætist.