Íslenska krónan hefur sveiflast mikið undanfarna daga gagnvart evrunni. Krónan hefur styrkst mikið allra síðustu daga eftir snarpa veikingu í síðustu viku og þeirri þar síðustu. Núna stendur miðgengið í 145,9 en lokagengið í gær var 147,9 og nemur styrkingin um 1%.
Á mánudaginn í síðustu viku var miðgengið komið upp í 150,3 krónur og hafði þá ekki verið hærra síðan síðan í september 2021, í miðju Covid-19.
Erfitt er að segja til um hvað nákvæmlega veldur sveiflunum. Landsbankinn hefur keypt mikið af evrum að undanförnu en virðist hættur því, að minnsta kosti í bili. Orðrómur er að það tengist bæði eigin lánum bankans og að viðskiptavinir séu að færa sig úr erlendum bönkum þar sem þeir skulduðu evrur, yfir í íslenska banka í krónur.
Það er heldur ekki útilokað að sú snarpa veiking sem varð hafi valdið því að einhverjir þeirra sem eru með framvirka samninga, þar sem þeir taka stöðu með krónunni gegn evru, hafi lokað samningunum og það hafi ýkt lækkunina eitthvað í þar síðustu og síðustu viku.
Hins vegar ætti krónan að hafa styrkst vegna sölu Símans á Mílu og Origo á Tempo. Hvort það innstreymi hefur að einhverju leyti þegar átt sér stað eða er væntanleg skal ekki segja.
Landsbankinn spáir áfram styrkingu
Landsbankinn, sá sami og sumir kenna um veikinguna, setti fram nýja spá um gengi krónunnar þann 19. október.
Bankinn spáir því nú að krónan styrkjast fram að áramótum og muni þá standa í 139 gagnvart evru. Fyrri spá bankans var 132 krónur fyrir evruna um áramótin. Þá spáir bankinn lítilegri styrkingu á árinu 2023 en eilítið meiri árið 2024.