Yrkir, fasteignafélag í eigu Festi, keypti lóðarleigu- og byggingaréttindi við Urriðaholtsstræti 3-5 í Garðabæ fyrir 137,5 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi. Kaupin eru háð ýmsum fyrirvörum, þar á meðal um endanlegt deiliskipulag lóðarinnar.

Áform eru um að þar muni rísa ný Krónuverslun ásamt skrifstofuhúsnæði innan næstu 3-4 ára, að því er kemur fram í uppgjörstilkynningu Festi, móðurfélags Krónunnar.

Útlit er því fyrir að Krónan opni verslun skammt frá verslunum Costco og Bónus í Kauptúni. Krónan rekur fyrir eina matvöruverslun í Garðbæ að Akrabraut 1. Aðrar verslanir Krónunnar í grennd við Urriðaholtið eru að Skógarlind 2-4 í Kópavogi og að Flatahrauni 13.

„Aðgengi að Urriðaholtsstræti 3 verður gott fyrir íbúa hverfisins sem hafa kallað eftir matvöruverslun í hverfið,“ segir í tilkynningu Festi um áformin.

„Á svæðinu verður atvinnustarfsemi bæði fyrir stærri og minni fyrirtæki. Meðal annars verða í boði á þessu svæði, sem nú er í uppbyggingu, litlar einingar sem hentað geta fyrir ýmsa þjónustu við íbúa. Hverfið er hannað til að falla vel að náttúrunni sem umlykur þessa uppbyggingareiti og eru ítrustu kröfur gerðar um hönnun og skipulag.“

Óðinn Árnason, framkvæmdastjóri Yrkis eigna, segir Urriðaholt vera öflugt vaxtarsvæði og félagið sjái mikla möguleika í samspili íbúabyggðar, þjónustu og atvinnuhúsnæðis á svæðinu.

Áformuð verslun Krónunnar í Urriðaholtinu yrði á móti húsnæði Náttúrufræðistofnunar. Teikningin er tekin frá Garðabæ.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Selja lóðir sem hýstu áður bensínstöðvar fyrir milljarð

Festi tilkynnti samhliða um að félagið hefði undirritað samninga við Sérverk ehf. um sölu á lóðum félagsins við Skógarsel 10 og Stóragerði 40 í Reykjavík, þar sem N1 rak áður bensínstöðvar.

Salan er í samræmi við samkomulag við Reykjavíkurborg og stefnu borgarinnar um að fækka bensínstöðvum. Lóðirnar verða í framhaldinu nýttar undir íbúðabyggð.

Sérverk er byggingarfyrirtæki í eigu Elíasar Guðmundssonar. Félagið velti 2,8 milljörðum króna í fyrra og var með eignir upp á 7,1 milljarð króna í árslok 2024.

Söluverð lóðanna er 1.010 milljónir króna en bókfært verð er um hálfur milljarður, að því er segir í uppgjörstilkynningu Festi. Viðskiptin munu ekki koma inn í uppgjör samstæðunnar fyrr en allir fyrirvarar eru uppfylltir.

Festi segir samningana háða ýmsum fyrirvörum, þar á meðal um endanlegt deiliskipulag lóðanna. Óvissa sé um hvenær allir fyrirvarar verði uppfylltir en væntingar eru um að hægt verði að ljúka viðskiptunum eigi síðar en á fyrsta ársfjórðungi 2026.

„Þetta eru tímamót í umbreytingu eldri þjónustulóða yfir í íbúðabyggð og við erum stolt af því að þessi þróun verði brátt að veruleika í samstarfi við Reykjavíkurborg og reyndan verktaka,“ segir Óðinn. „Nú munu þessar lóðir í framtíðinni iða af lífi og uppfylla þarfir fjölbreyttra fjölskyldna fyrir húsnæði.“

Gamla bensínstöð N1 að Skógarseli 10.
© Morgunblaðið/sisi (Morgunblaðið/sisi)

Þá tilkynnti samstæðan um kaup dótturfélagsins Yrkis á Dalakofanum að Laugum í Reykjadal sem rekur veitingarekstur og verslun. N1 hefur rekið þar eldsneytisafgreiðslu á lóðinni um árabil. Við kaupin tók N1 við rekstri veitingastaðarins og verslunarinnar á staðnum.