Afhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fór fram síðastliðinn fimmtudag í Grósku og hlaut Krónan verðlaun í flokknum „Besta fjárfesting í hönnun“, viðurkenningu til fyrirtækis sem hefur hönnun og arkitektúr að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni.
Í rökstuðningi dómnefndar kemur m.a. fram að Krónan sé til fyrirmyndar í margvíslegu samstarfi við leiðandi íslenska hönnuði, sem byggi á ríkulegri hugmyndaauðgi og framsýni í umhverfismálum, þar sem rauði þráðurinn sé aukin umhverfisvitund og sjálfbærni.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Það er mat dómnefndar að fjárfesting í samstarfi af þessu tagi hafi margfeldisáhrif sem eru dýrmæt samfélaginu öllu, enda er í henni fólginn víðtækur samfélagsábati, heilmikið fjör og viðurkenning á gæðum og áhrifamætti íslenskrar hönnunar.“
Stöðug þróun
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, er ánægð með viðurkenninguna enda hefur áhersla á skapandi íslenska hönnun verið ríkur þáttur í vegferð Krónunnar.
„Við viljum Krónan sé meira en bara staður til að sinna matarinnkaupum. Þess vegna verðum við að horfa út fyrir hið hefðbundna og skora á okkur sjálf, okkar eigin forsendur og ákvarðanatöku. Þarna kemur hönnun og skapandi samstarf með öflugum aðilum svo sterkt inn, hvort sem það á við um arkitekta, frumkvöðla og vöruhönnuði, eða öfluga nemendur Listaháskóla Íslands.
Við vitum að hönnun er ekki bara útlit eða frágangur; hönnun er burðarásinn í að miðla framtíðarsýn okkar og skapa þá upplifun sem við viljum bjóða viðskiptavinum okkar,“ segir Guðrún.
Grafarholtið gott dæmi
Guðrún nefnir nýlegt dæmi af endurhönnun verslun Krónunnar í Grafarholti sem var endurskipulögð og endurnýjuð frá grunni og átti verslunin þegar upp var staðið lítið sem ekkert skylt við innra rými verslunarinnar fyrir breytingar.
„Í hönnunarferlinu leggjum við mikla áherslu á gott skipulag, yfirsýn og rýmistilfinningu. Við viljum að Krónan taki vel á móti viðskiptavinum, verslanirnar séu bjartar og hlýlegar og að fólk njóti þess að versla í Krónunni.
Það er ekki endilega augljóst í augum fólks hversu mikið liggur að baki í hönnun og uppsetningu nýrra og endurgerðra verslana en það þarf að huga að fjölmörgum stórum sem smáum atriðum til að skapa þessa jákvæðu upplifun og sömuleiðis mæta hinum margvíslegu og ólíku þörfum viðskiptavina,“ segir Guðrún.
Sköpun og gagnrýni Krónunni nauðsynleg
Krónan hefur markvisst starfað með skapandi fólki og hönnuðum í margvíslegum verkefnum, allt frá því að skapa og þróa hugmyndir með kraftmiklum nemendum í Listaháskóla Íslands yfir í samstarf með frumkvöðlum, vöruhönnuðum og arkitektum í gegnum samstarf við meðal annars Stúdíó Fléttu, Meltu, Plastplan og arkitektastofuna DAP.
„Hönnun hjálpar okkur að mæta fjölbreyttum og síbreytilegum þörfum viðskiptavina, auka og miðla sjálfbærni og síðast en ekki síst að skapa rými þar sem við öll finnum okkur velkomin,“ segir Guðrún.
Samstarfið hefur verið bæði gefandi og árangursríkt og kallað fram ýmsar áleitnar spurningar á borð við: „Er matvöruverslun bara rými fyrir matvörur?“ Stutta svarið var afdráttarlaust nei. Í kjölfarið var haldin leiksýning í versluninni á Granda í samstarfi við Urbania og Þjóðleikhúsið, sem sýndu þar í fyrra leikverkið Aspas svo dæmi sé tekið.
„Við höfum líka unnið með nemendum Listaháskóla Íslands þar sem m.a. var tekist á við spurninguna „Hvernig lítur sjálfbærari framtíð út og hvert er hlutverk okkar sem matvöruverslun í þeirri jöfnu? „Við höfum einnig horft til hringrásarhagkerfisins í samstarfi við Stúdíó Fléttu og Meltu í tengslum við Hönnunarmars,“ segir Guðrún.
Sjálfbærni útgangspunktur í þróun allra lausna
Krónan sér mikil tækifæri til framtíðar þegar kemur að sjálfbærni þó að verkefnið geti verið krefjandi.
„Við leggjum áherslu á að þróa lausnir sem stuðla að heilsusamlegri og sjálfbærari framtíð fyrir viðskiptavini okkar, samfélagið og umhverfið. Með sjálfbærni sem útgangspunkt stefnum við að því að lágmarka kolefnisspor okkar, efla velferð samfélagsins og vera leiðandi afl í sjálfbærri nýsköpun í íslenskum verslunarrekstri.“