Ásama tíma og umfang netverslunar með matog dagvöru hefur aldrei verið meiri en síðustu vikur hafa tvær stærstu lágvöruverðsverslanir landsins, Krónan og Bónus, ekki enn hafið innreið sína inn á markaðinn þótt Hagkaup sé með netverslun. Hjá Krónunni er þó að verða breyting þar á þar sem snjallverslun Krónunnar er komin í prófanir. Þær hófust fyrir páska hjá starfsmönnum Krónunnar en þá hefur framlínustarfsfólki auk þeirra sem eiga erfitt með að kaupa matvöru vegna aðstæðna út af COVID-19 einnig verið veittur aðgangur.
Að sögn Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, er ferlið við að setja lausnina í loftið ekki ólíkt því að opna nýja verslun.
„Netverslun í matvöru er erfitt verkefni en við trúum því að við getum látið þetta ganga upp. Markmið okkar er að einfalda viðskiptavinum lífið og taka upplýstar ákvarðanir.
Þegar við opnum nýja búð þá gerum við það fyrst án þess að auglýsa þar sem þú vilt þjónusta viðskiptavini vel og upplifun þeirra sem koma verður að vera það góð að þeir komi aftur. Þess vegna opnum við vanalega án mikils umstangs. Það er í raun það sama sem við erum að gera núna og við munum smátt og smátt bæta við fólki og á einhverjum tímapunkti munum við opna fyrir alla en núna hvetjum við alla sem eru í framlínu til að hafa samband við okkur. Við erum hins vegar ekki alveg tilbúin að gefa út hvenær við opnum þar sem enn eru lítil vandamál til staðar sem við þurfum að leysa.“
Snjallverslun Krónunnar mun að einhverju leyti skera sig frá öðrum netverslunum þar sem hún verður eins og nafnið gefur til kynna eingöngu forrit fyrir snjalltæki. Gréta segir þá leið veita meiri möguleika en hefðbundin netverslun þar sem hér á landi er mjög hátt hlutfall landsmanna með snjalltæki.
„Í appinu er t.d. skanni sem býður t.d. upp á að hægt er að skanna vörurnar sem eru að klárast í ísskápnum og setja þannig saman innkaupalista. Þú getur einnig verið í verslun, skannað vöruna þar og séð ítarupplýsingar um vöruna auk þess sem þú getur líka verið í annarri verslun og séð hvaða verð er á sömu vöru í snjallverslun Krónunnar sem er það sama og í hefðbundinni verslun."
Netverslun ekki í kortunum hjá Bónus
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri lágvöruverðsverslunarinnar Bónus, segir að ekki standi til að verslunin muni opna netverslun, þar sem að það myndi stríða gegn viðskiptamódeli fyrirtækisins.
„Möguleikinn á að setja upp netverslun hefur margoft verið ræddur hér innanhúss en eftir að hafa skoðað málið hefur niðurstaðan alltaf verið sú sama; að viðskiptamódel Bónusar bjóði ekki upp á að setja á fót netverslun,“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .