Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um 1,52% gagnvart evru það sem af er degi. Þá hefur krónan styrkst um 1,51% gagnvart dollar og 1,38% gagnvart pundi. Gera má ráð fyrir að breytingar sem gerðar voru á innflæðishöftum síðastliðinn föstudag hafi töluverð áhrif.
Breytingarnar fólu í sér að hin sér bindingarskylda á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður sem sett var í júní 2016 var lækkuð úr 40% í 20%.
Ákvörðun Seðlabankans virðist einnig hafa haft áhrif á skuldabréfamarkaði en þegar þetta er skrifað hefur ávöxtunarkrafa 10 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkað um 14 punkta (0,14 prósentustigum) en lækkunin nam 20 punktum í fyrstu viðskiptum. Auk þess hefur krafa allara óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkað um 14-18 punkta.
Þessu til viðbótar er grænt á flestum tölum á hlutabréfamarkaði. Gengi bréfa Sjóvá hefur hækkað um 3,07%, Eikar um 2,71% og VÍS um 2,62%.