Ís­lenska krónan hefur styrkt sig um 1,8% gagn­vart Banda­ríkja­dal síðast­liðna sjö daga og er dalurinn kominn undir 140 krónur á ný.

Banda­ríkja­dalur stendur í 137,9 krónum í dag en var 140,4 síðasta fimmtu­dag.

Á sama tíma hefur krónan styrkt sig gagn­vart evru um 1,62% síðast­liðna viku og hefur evran lækkað úr 153 krónum í 150,5 krónur.

Þá hefur ís­lenska krónan styrkt sig um 1,59% gagn­vart dönsku krónunni og 1,33% gagn­vart norsku krónunni.

Krónan styrkti sig tölu­vert um miðjan mánuð þegar Seðla­bankinn greip inn á gjald­eyris­markaði en fram að þeim tíma hafði gengi krónunnar veikst mikið, sér í lagi vegna ó­vissu í kringum jarð­hræringa á Reykja­nes­skaga.

Heimild: Landsbankinn