Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verslunin hafi hingað til ekki viljað selja áfengi í gegnum vefverslun þrátt fyrir að innviðir séu til staðar.
Hún segir að Krónan muni fylgjast náið með því hvernig umræðan þróast en það séu margir þættir sem taka þurfi tillit til þegar kemur að ákvörðunum sem þessum.
Hagkaup tilkynnti í síðustu viku að verslunin myndi í næsta mánuði opna netverslun með áfengi. Netverslunin mun virka þannig að viðskiptavinir skanna QR-kóða þegar þeir koma inn í verslunina. Á meðan viðskiptavinur verslar aðrar vörur í búðinni setur starfsmaður áfengið í poka sem er síðan sótt við þjónustuborð í lok verslunarferðarinnar.
Þróun áfengissölu á netinu hefur vaxið undanfarin ár og er nú hægt að versla áfengi hjá fjölda smásala. Costco byrjaði einnig að selja áfengi í gegnum sína netverslun síðasta sumar.
Að sögn Guðrúnar er ljóst að skiptar skoðanir eru á fyrirkomulagi á sölu áfengis í smásölu á Íslandi og segir hún það skiljanlegt.
„Fyrirtæki starfa í dag á gráu svæði og það sýnir fram á mikilvægi þess að löggjafinn meti og taki ákvörðun um hvort breyta eigi áfengislögum svo þau heimili innlendar vefverslanir með áfengi. Með því að taka þetta fyrir væri í leiðinni hægt að skerpa á hinum ýmsu þáttum líkt og reglum um aðgengi, afhendingu og fleira þannig að leikreglur séu skýrar,“ segir Guðrún.