Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á fjölda dótturfélaga, sem og eignarhluti í öðrum félögum. Eignarhlutir samstæðu KS eru tilgreindir í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2024 en skýrslan er nýkomin út.
Flest félaga í KS samstæðunni eru með starfsemi í landbúnaði og sjávarútvegi. Fyrst ber að nefna 100% eignarhlut í dótturfélaginu FISK Seafood en félagið rekur útgerðar og fiskvinnslustarfsemi samstæðunnar og er með fiskvinnslu og útgerð á Sauðárkróki og í Grundarfirði.
Þá á KS samstæðan 32,9% í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum og er bókfært virði hans um 13,1 milljarður króna. Einnig á félagið 11,8% í Iceland Seafood International hf. og er bókfært virði þess hlutar um 1,8 milljarðar króna.
Þá á KS samstæðan einnig 20% í Mjólkursamsölunni og er bókfært virði hlutarins ríflega 1,7 milljarðar króna. Að auki á samstæðan 16% hlut í skipaflutningafyrirtækinu Cargow BV en bókfært virði hans er um milljarður króna. Þá á KS samstæðan 100% hlut í Esju Gæðafæði, 100% hlut í flutningafyrirtækinu Vörumiðlun og 83,4% hlut í Fóðurblöndunni.
Skopp og Metró
KS samstæðan á einnig hluti í fjöldamörgum öðrum félögum sem tengjast ekki sjávarútvegi eða landbúnaði. Má nefna 50% hlut í Lundey fjárfestingafélagi, sem hefur verið einn stærsti hluthafinn í VAXA Technologies, sem er hátæknifyrirtæki í smáþörungaræktun við Hellisheiðavirkjun.
Einnig á KS samstæðan skyndibitastiðinn Metró í Reykjavík að fullu. Þá á KS 50% hlut í Foss distillery, sem er með starfsemi í Kópavogi og framleiðir líkjöra, brennivín og vodka. KS samstæðan á ennfremur 21% hlut í Leikdegi, sem rekur Skopp á Dalveginum í Kópavogi.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.