Hluthafar Kjarnafæði Norðlenska hf. hafa samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæðis Norðlenska hf.
Hluthafar Búsældar ehf., félags bænda sem er eigandi rúmlega 43% hlutafjár, munu ákveða hver fyrir sig hvort þeir selji sína hluti en Eiður Gunnlaugsson, eigandi rúmlega 28% hlutafjár, og Hreinn Gunnlaugsson, eigandi rúmlega 28% hlutafjár, munu selja allt sitt hlutafé.
Í tilkynningu segir að meginmarkmið viðskiptanna sé að auka hagkvæmni, lækka kostnað við slátrun og úrvinnslu kjötafurða og auka þannig skilvirkni og samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu bændum og neytendum til hagsbóta.
Viðskiptin eru möguleg vegna nýrra laga sem heimila framleiðendafélögum að sameinast og hafa með sér verkaskiptingu. Eftir setningu laganna hafa margir bændur kallað eftir frekari hagræðingu í greininni en möguleg samlegðaráhrif Kaupfélags Skagfirðinga og Kjarnafæði Norðlenska við slátrun og úrvinnslu kjötafurða eru líklega þau mestu í íslenskum landbúnaði og viðskiptin því eðlilegt framhald lagasetningarinnar. Það verður því í höndum þessara tveggja félaga bænda að vinna úr þeim ef viðskiptin verða að veruleika.
„Í kjölfar nýlegra breytinga á lögum hefur kjötgreinum á Íslandi verið gert mögulegt að hagræða á sama hátt og þekkist í öðrum löndum. Þessi viðskipti eru rökrétt framhald af þessum breytingum og líkleg til að auka hagsæld bænda og neytenda enda er verið að bæta samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu með því að gera verulega hagræðingu mögulega,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Kjarnafæðis Norðlenska.