Knattspyrnusamband Íslands hagnaðist um 157 milljónir króna árið 2022. Rekstraráætlun gerði ráð fyrir 21 milljóna hagnaði. Sambandið velti rúmum tveimur milljörðum króna.

Er þetta þriðja besta rekstrarár sambandsins frá árinu 2015 en KSÍ hagnaðist mest árin 2016 og 2018 þegar karlalandsliðið komst í úrslitarkeppnirnar á Evrópumótinu og heimsmeistaramótinu..

Bæði tekjur og gjöld fóru fram úr áætlun. Mestu munaði tekjumegin um styrk úr ríkissjóði vegna Covid sem nam 110 milljónum króna. Ekki var gert gert ráð honum fyrir í áætlun.

Einnig voru sjónvarpstekjur mun hærri en áætlun, eða sem nemur 140 milljónum króna.

Gjaldamegin munaði mestu um hærri kostnað vegna landsliða og skrifstofu og stjórnunarkostnaðar.

Næst mesti hagnaður KSÍ undanfarin ár var 2018 þegar íslenska karlalandsliðið komst á HM. Hér má sjá mynd frá leik Íslands á móti Argentínu sem endaði með stórsigri Íslands, 1-1.
© epa (epa)

Eigið fé sambandsins hefur fjórfaldast frá árinu 2015, úr 221 milljón króna í 866 milljónir króna í fyrra.

Samkvæmt rekstraráætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir 24 milljóna króna hagnaði og velta verði minni en í fyrra, 1.856 milljónir króna í stað 2.047 milljóna króna.