Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og meðlimur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir þau sjónarmið hafa komið fram í viðræðum nefndarinnar við erlenda sérfræðinga um söluna á hlut í Íslandsbank í mars að þeir hafi orðið þess áskynja að alþjóðlegir fjárfestar séu farnir að lýsa yfir efasemdum um það hversu ákjósanlegt Ísland verði sem fjárfestingakostur í framtíðinni í ljósi þess – eins og þeir sjái það – pólitíska upphlaups í kjölfar vel heppnaðrar sölu sem í þeirra augum sé tilefnislítið eða -laust.

„Það er auðvitað angi málsins sem okkur ber skylda til að hafa í huga enda miklir hagsmunir undir í þessum efnum fyrir land og þjóð,“ segir Hildur.

Fulltrúar ráðgjafafyrirtækisins STJ Advisors sem starfaði sem óháður fjármálaráðgjafi Bankasýslunnar í söluferlinu héldu kynningu á faglegu mati sínu á söluferlinu á mánudag fyrir nefndinni auk þess að sitja fyrir svörum.

„Það er dýrmætt fyrir nefndina að fá bestu og reynslumestu sérfræðinga heims í svona sölu til að segja sitt álit og taka saman svona kynningu.“

Þeir tveir fulltrúar sem fyrir hönd fyrirtækisins mættu hafa sín á milli 72 ára reynslu af hlutafjárútboðum samkvæmt glærukynningu þeirra sem blaðið hefur undir höndum.

Í lok kynningarinnar kemur fram að STJ hafi veitt ráðgjöf í alls 58 útboðum að samanlagðri upphæð yfir 14 milljarða evra eða á þriðja þúsund milljarða íslenskra króna. Í þeim útboðum hafi meðalfrávik frá dagslokagengi að meðaltali verið undir meðaltali eða 4,1% – akkúrat hlutfallið í útboðinu í mars – og meðalumfang numið ígildi 110 daga meðalveltu, sem sé yfir meðaltali.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.