Seðlabanki Japans kom markaðnum í opna skjöldu með breytingu á ávöxtunarferilsstefnu sinni. Breytingin gefur svigrúm fyrir ávöxtunarkröfu á tíu ára japönskum ríkisbréfum að fara upp í 0,5% en til samanburðar var fyrra þak bankans í 0,25%.
Ávöxtunarkrafa á tíu ára japönskum ríkisskuldabréfum tók stökk eftir tilkynningu bankans og fór úr 0,26% í 0,46%. Krafan hefur ekki verið hærri frá árinu 2015. Seðlabankinn hefur verið með viðmið frá árinu 2016 um halda ávöxtunarkröfu á tíu ára bréfunum í kringum núllið til að reyna að halda markaðsvöxtum lágum.
Japanska jenið styrktist mikið eftir tilkynninguna. Gengi Bandaríkjadalsins á móti jeninu var í kringum 137 fyrir tilkynninguna en á bilinu 132-133 í kjölfar hennar. Jenið hafið veikst talsvert í ár, einkum vegna aukins vaxtamunar á milli Japans og Bandaríkjanna. Jenið hefur styrkst um 3,5% gagnvart íslensku krónunni í dag.
Þá lækkaði japanska Nikkei Stock Average hlutabréfavísitalan um 2,5% vegna væntinga um að versnandi vaxtakjör fyrirtækja.
Mjög óvænt að mati aðalhagfræðings hjá Goldman
Fjárfestar sem Financial Times ræddi við lýstu ákvörðun Seðlabanka Japans sem kúvendingu. Bankinn er síðastur af stærstu seðlabönkum heims til að halda sér við ofurlaust taumhald á peningastefnu sinni við vaxandi verðbólgu.
„Við teljum þessa ákvörðun vera mjög óvænta,“ segir Naohiko Baba, aðalhagfræðingur Goldman Sachs á Japansmarkaði. Hann segist hafa átt von á, líkt og markaðurinn, að bankinn myndi víkka vikmörk stefnunnar næsta vor.
Á blaðamannafundi vegna hafnaði japanski seðlabankastjórinn Haruhiko Kuroda að breytingin væri ígildi vaxtahækkunar og ítrekaði að bankinn myndi ekki víkja frá markmiði sínu um ákveðið bil ávöxtunarkröfunnar. Hann hafði áður sagt að breytingar á ávöxtunarferilsstefnu bankans væru ígildi vaxtahækkunar.
Kjarnaverðbólga í Japan, sem undanskilur matvælaverð, náði 40 ára hámarki í 3,6% í október. Kjarnaverðbólgan hefur verið yfir 2% markmiði bankans sjö mánuði í röð.
The yen surged after Japan's central bank shocks markets by tweaking its yield curve control program https://t.co/CBnhDrchRM pic.twitter.com/CwD9fgu9an
— Bloomberg Markets (@markets) December 20, 2022