ÁTVR seldi áfengi og tóbak fyrir rúmlega 42 milljarða í fyrra en tekjurnar drógust alls saman um 263 milljónir frá fyrra ári. Þar af nam sala áfengis um 38 milljörðum og dróst saman um 4,2% frá fyrra ári. Sala tóbaks nam 9,8 milljörðum og dróst sígarettusala saman um 5,2%. Sala neftóbaks hélt einnig áfram að dragast saman og seldust 9 tonn í fyrra. Leita þarf aftur til ársins 1979 til að finna sambærilega sölu, að því er kemur fram í formála forstjóra í ársskýrslu ÁTVR. Salan fór hæst í 46 tonn árið 2019.

Hagnaður ríkiseinokunarverslunarinnar nam 537 milljónum króna, en til samanburðar nam hagnaður ársins 2023 779 milljónum. 250 milljónir voru greiddar í arð til eigandans, ríkissjóðs, sem er helmingi lægri arðgreiðsla en var greidd út árið 2023.

Illsjáanlegar hagræðingaraðgerðir

Í fyrrnefndum formála forstjóra stofnunarinnar, Ívars Arndal, segir að afkoma ÁTVR hafi versnað undanfarin ár vegna erfiðs rekstrarumhverfis.

„Ólögleg áfengissala einkaaðila vegur þar þungt. Vegna minnkandi sölu og til þess að skila viðunandi arðsemi þurfti ÁTVR að draga saman í rekstrinum og fara í ýmsar hagræðingaraðgerðir. Aðgerðirnar tókust vel og var afkoma ársins betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.“

Þegar horft er til rekstrarkostnaðar ÁTVR er þó erfitt að sjá í hverju meintar hagræðingaraðgerðir fólust, nema forstjórinn telji það hagræðingaraðgerð að auka ekki rekstrarkostnað á milli ára. Þannig kemur fram í ársskýrslunni að rekstrargjöld hafi numið 41,8 milljörðum króna í fyrra, sem er nánast sami rekstrarkostnaður og árið áður. Raunar var kostnaðurinn 348 þúsund krónum lægri í fyrra en árið áður, samkvæmt ársskýrslu.

Vörunotkun nam 35,9 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 36 milljarðar árið 2023. Laun og launatengd gjöld námu 3,7 milljörðum og jukust lítillega, eða um 1%, á milli ára. Ársverk voru 315 í fyrra en voru 333 árið 2023. Laun og launatengd gjöld forstjóra námu 27,75 milljónum króna árið 2024 en voru 26,3 milljónir árið áður. Hækkunin milli ára nemur 5,5%

Húsnæðiskostnaður nam 877 milljónum árið 2024, samanborið við 858 milljónir árið áður. Sölu og dreifingarkostnaður nam 233 milljónum og jókst um 47 milljónir frá fyrra ári. Þá nam stjórnunar- og skrifstofukostnaður 617 milljónum í fyrra og jókst um 8,2% frá fyrra ári. Annar rekstrarkostnaður nam 49 milljónum og dróst saman um 5 milljónir á milli ára. Loks námu afskriftir 382 milljónum, samanborið við 357 milljónir árið 2023.

Arðsemi eigin fjár dregist verulega saman

Eignir ÁTVR námu 9,2 milljörðum króna í lok síðasta árs, skuldir 1,7 milljörðum og eigið fé 7,5 milljörðum. Arðsemi eigin fjár var 7,4% í fyrra, samanborið við 11,2% árið 2023. Arðsemi eigin fjár hefur dregist nokkuð hressilega saman undanfarin ár en Covid-árið 2020 var nam hún 39,3% og var 30% ári síðar. Árið 2022 lækkaði arðsemi eigin fjár svo verulega og nam 13,3%. Þess ber þó að geta að í byrjun þess árs voru allar sóttvarnaraðgerðir felldar á brott en umræddar aðgerðir leiddu m.a. til þess að sala áfengis færðist í auknum mæli til ÁTVR á kostnað veitingastaða og öldurhúsa.

Ívar á förum

Ívar mun láta af störfum sem forstjóri ÁTVR 1. september næstkomandi en fyrr á þessu ári var greint frá að hann hygðist ekki sækjast eftir endurráðningu. Starfið var auglýst í byrjun mánaðar og rann umsóknarfrestur út sl. þriðjudag.

Ívar hefur verið gegnt stöðu forstjóra ÁTVR í 20 ár. Hann var þar áður aðstoðarforstjóri í þrjú ár frá 2000.

„Ég færi öllu starfsfólki ÁTVR mínar bestu þakkir fyrir framúrskarandi árangur á liðnum árum. Það er starfsfólkinu að þakka að ÁTVR er margverðlaunað fyrirtæki og í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins. Einnig vil ég þakka starfsfólki ÁTVR samstarfið á liðnum árum og áratugum,“ eru lokaorðin í síðasta formála Ívars sem forstjóri ÁTVR.